Meðferð á psoriasis

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 14:48:56 (5943)

2000-04-05 14:48:56# 125. lþ. 91.5 fundur 476. mál: #A meðferð á psoriasis# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 125. lþ.

[14:48]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. 13. þm. Reykv. spyr mig um loftslagsmeðferð erlendis fyrir psoriasissjúklinga og fullyrðir í spurningunni að stórlega hafi dregið úr heimildum fyrir þá til að gangast undir slíka meðferð. Fullyrðingin er bæði rétt og röng.

Eins og hv. fyrirspyrjandi kom inn á í ræðu sinni giltu áður sérákvæði gagnvart psoriasissjúklingum og fóru árlega um 30--40 sjúklingar til Kanaríeyja til slíkrar meðferðar. Í lok árs 1995 ákvað tryggingaráð að hætta að greiða fyrir skipulagðar ferðir til Kanaríeyja. Þess í stað var ákveðið að reglur um utanfarir psoriasissjúklinga yrðu þær sömu og gagnvart öðrum sjúklingahópum skv. 35. gr. almannatryggingalaga, þar sem m.a. er kveðið á um svokallaða siglinganefnd. Nefndin hefur þær reglur að þörf verði að vera mjög brýn og meðferð fullreynd hérlendis áður en sjúklingar eru sendir úr landi og gildir það um alla sjúklingahópa. Breytingin byggist með öðrum orðum á faglegum grundvelli.

Í ljós hefur komið að vísindalegar rannsóknir af meðferð á psoriasis við Bláa lónið hafa sýnt mjög góðan árangur, bæði böðin, ekki síður ef jafnframt er notuð ljósameðferð. Gerði Tryggingastofnun í framhaldi af þessu samning við Heilsufélagið um meðferð við Bláa lónið og eru nú meðhöndlaðir þar 222 sjúklingar á ári á vegum Tryggingastofnunar ríkisins, en eins og áður segir áttu einungis 30--40 sjúklingar kost á ferð úr landi áður. Vegna þessarar starfsemi var einnig komið upp sjúkrahóteli við Bláa lónið fyrir þá sjúklinga sem koma utan af landi og greiðir Tryggingastofnun kostnaðinn vegna dvalar þar.

Meðferðarmöguleikar fyrir psoriasissjúklinga hafa verið auknir á fleiri vegu. Í febrúar á þessu ári var gefin út ný auglýsing um gjaldskrá fyrir meðferð húðsjúkdóma, veitt af öðrum en læknum. Með breytingunum sem sú auglýsing fól í sér stendur psoriasissjúklingum nú til boða meðferðarmöguleikar víðar en áður var en jafnframt stendur nú til boða meðferð í betri lömpum en áður buðust, tæki eru stillanleg eftir þörf húðar fyrir ljósmagn í hvert sinn. Gæði meðferðar fyrir psoriarissjúklinga hafa því tvímælalaust aukist.

Tryggingastofnun ríkisins hefur nýlega endurnýjað samning við Samtök psoriasis- og exemsjúklinga sem hefur gefið samtökunum aukið rými til meðhöndlunar á psoriasissjúkdómnum. Því verður að telja að þeir þættir sem ég hef nú talið upp hafi opnað möguleika á verulega bættri aðstöðu fyrir psoriasissjúklinga á Íslandi andstætt því sem látið er að liggja í spurningunni.

Virðulegi forseti. Hv. 13. þm. Reykv. spyr hvort skilyrðum siglinganefndar verði breytt varðandi þennan sjúklingahóp. Af því tilefni skal tekið fram:

Strax og hinum skipulögðu Kanaríeyjaferðum var hætt árið 1996 var gert ráð fyrir að hægt væri að sækja um meðferð við psoriasis erlendis vegna afar erfiðs sjúkdóms. Afgreiðsla siglinganefndar Tryggingastofnunar á slíkum umsóknum er skv. 35. gr. almannatryggingalaga. Hefur nefndin afgreitt ferðaheimildir að fengnum læknisvottorðum. Nefndin setti sér viðmiðunarreglur 1998 að höfðu samráði við dósent í húðsjúkdómum við læknadeild Háskóla Íslands til að skilgreina skilyrði um að meðferð væri fullreynd á Íslandi. Þessum reglum var breytt í mars 1999 og þá miðað við að meðferð á húðdeild Landspítalans sé að fullu reynd. Ef einhver þeirra meðferðarúrræða sem eru skilyrði fyrir heimild á utanferð koma ekki af einhverjum ástæðum til greina þarf læknir umsækjanda að gefa skýra grein fyrir því hvers vegna svo sé.

Nú sé ég að klukkan er farin að tifa á mig. En til að mynda hafa nú þegar fjórir Íslendingar fengið leyfi á þessu ári til að fara og að öðru leyti vísa ég til skriflegs svars sem liggur á borðum hv. þm.

Varðandi allra síðustu spurningu hv. þm. um lyfin þá er það metið fyrir hvern einstakling.