Meðferð á psoriasis

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 14:54:14 (5944)

2000-04-05 14:54:14# 125. lþ. 91.5 fundur 476. mál: #A meðferð á psoriasis# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., PBj
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 125. lþ.

[14:54]

Pétur Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil taka undir með fyrirspyrjanda um nauðsyn þess að reglur sem gilda fyrir psoriasissjúklinga verði rýmkaðar. Ekki ætla ég að draga í efa þær vísindalegu rannsóknir sem gerðar hafa verið á meðferð í Bláa lóninu sem hefur reynst vel, en ég vil hins vegar benda á það að psoriasis er afar óvenjulegur sjúkdómur og afskaplega persónubundinn. Það sem hentar einum, hentar e.t.v. ekki öðrum. Mér finnst það koma fram í svari hæstv. heilbrrh. við fyrirspurn hv. þm. að þær breytingar sem hafa verið gerðar á utanferðum og reglum um utanferðir í lækningaskyni fyrir psoriasissjúklinga fullnægi ekki þeirri þörf sem er nú fyrir hendi. Ég harma að svör hafa ekki komið efnislega við því hvort ætlunin sé að bæta stöðu sjúklinga hvað snertir ferðalög til útlanda í lækningaskyni.