Meðferð á psoriasis

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 14:55:32 (5945)

2000-04-05 14:55:32# 125. lþ. 91.5 fundur 476. mál: #A meðferð á psoriasis# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 125. lþ.

[14:55]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Vissulega er full ástæða til að nýta Bláa lónið sem best og nota úrræði sem eru hér á landi til hins ýtrasta. En það er fjöldi sjúklinga sem eru haldnir þessum hvimleiða sjúkdómi, psoriasis, sem fær ekki hjálp þar. Fyrir tveimur árum fengum við í heilbr.- og trn. gesti á fund okkar frá psoriasissamtökunum sem sýndu okkur fram á það hvernig fólk var orðið óvinnufært vegna þess að það fékk ekki viðunandi meðferð, eina leiðin var loftslagsmeðferðin. Það gat haldið heilsu í heilt ár, jafnvel lengur, eftir slíka meðferð, en var sett á lyf og mun dýrari meðferð hér á landi vegna þessara breyttu reglna.

Nú kemur fram í svari sem liggur hér á borðum að heimilaðar hafi verið þrjár ferðir, sex ferðir og fjórar ferðir á ári í loftslagsmeðferð. Þetta eru mjög fáar ferðir og það kom fram hjá fulltrúum psoriasissamtakanna að fólki hefði verið synjað um slíkar ferðir.

(Forseti (ÍGP): Tíminn er útrunninn. Hv. þm. er þegar komin 18 sekúndur fram yfir.)

Herra forseti. Ég vona að hæstv. ráðherra breyti þeim reglum og sjái til þess að þeir sem fá ekki lækningu í Bláa lóninu geti leitað sér lækninga á Kanaríeyjum.

(Forseti (ÍGP):Forseti vill minna hv. þm. á það að í fyrirspurnartíma hafa þingmenn eina mínútu til umráða en ekki eina og hálfa mínútu.)