Greiðsla þungaskatts erlendra ökutækja

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 15:01:59 (5949)

2000-04-05 15:01:59# 125. lþ. 91.6 fundur 446. mál: #A greiðsla þungaskatts erlendra ökutækja# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., JónK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 125. lþ.

[15:01]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég mæli fyrir fsp. sem hv. þm. Jónas Hallgrímsson, sem sat hér á þingi sem varamaður, flutti á þskj. 717. Hún er svohljóðandi:

1. Hvaða reglur gilda um notkun kreditkorta við greiðslu þungaskatts erlendra ökutækja sem koma tímabundið til landsins?

2. Eru fyrirhugaðar breytingar á gildandi reglum?

Fyrirspurnin er til komin af því að í gildi hafa verið reglur um að taka ekki við kreditkortum til greiðslu þungskatts af ökutækjum sem koma hingað til lands. Þetta veldur töfum og óþægindum við afgreiðslu ferðamanna, innlendra og erlendra, sem koma hingað með ökutæki sín. Greiðslukort eru viðurkenndur gjaldmiðill í öllum þróuðum löndum og nýlega hefur verið slakað á reglum um notkun greiðslukorta við tollafgreiðslu, m.a. á Keflavíkurflugvelli. Enn fremur hefur sýslumannsembættið á Seyðisfirði sent fjmrn. erindi varðandi þetta mál þar sem bent er á þau óþægindi sem af þessu hljótast. Þess vegna er þessi fyrirspurn borin fram.