Lækkun lyfjaútgjalda Tryggingastofnunar ríkisins

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 15:12:59 (5954)

2000-04-05 15:12:59# 125. lþ. 91.7 fundur 516. mál: #A lækkun lyfjaútgjalda Tryggingastofnunar ríkisins# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 125. lþ.

[15:12]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég held að það sé alveg hárrétt hjá hæstv. fjmrh. að óvenjulegt sé að beina fyrirspurnum sem tengjast heilbrigðisþjónustunni, og þess vegna lyfjaverði einnig, til hæstv. fjmrh. Ég held að það sé kominn tími til þess að við gerum meira af því að sjá til að ráðherrar Sjálfstfl. láti ekki alltaf samverkamenn sína í ríkisstjórn axla byrðarnar.

Auðvitað er þetta á ábyrgð ríkisstjórnarinnar allrar. Auðvitað er þetta á ábyrgð verkstjórans í fjármálum ríkisins, hæstv. fjmrh. Geirs H. Haarde. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt að þessari fyrirspurn sé beint til hans.

Hér kom fram, í tengslum við utandagskrárumræðu um lyfjaverð fyrir fáeinum dögum, að stjórnarmeirihlutinn væri staðráðinn í að spara 1.000 millj. kr. í lyfjaverði. Þegar við spurðum hvort þetta yrði gert á kostnað sjúklinganna, þeirra sem þurfa að nota lyfin, var sagt að þetta yrði gert hvað sem tautaði og raulaði. Það teljum við alvarleg tíðindi og ástæðu til að krefja hæstv. ráðherra svara.