Lækkun lyfjaútgjalda Tryggingastofnunar ríkisins

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 15:19:14 (5958)

2000-04-05 15:19:14# 125. lþ. 91.7 fundur 516. mál: #A lækkun lyfjaútgjalda Tryggingastofnunar ríkisins# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 125. lþ.

[15:19]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það er einhver misskilningur að ég sé að kvarta yfir því að þessari spurningu skuli beint til mín sérstaklega. Ég er að kvarta yfir innihaldi spurningarinnar vegna þess að svörin við henni eru að sjálfsögðu augljós. Það liggur fyrir hver markmið manna eru í fjárlögunum og ætlunin er að standa við þau. Það er ágætt samstarf milli ráðuneytanna tveggja um þetta atriði eins og fjölmörg önnur.

Í fjárlögunum var ætlunin að spara eitt þúsund millj. í þessum lið. Það var gripið til aðgerða um áramót sem talið er að muni spara 300--400 millj. á heilu ári, þ.e. á þessu ári, af þessum 1000 millj. Síðan hefur ráðuneytið verið með ýmsar aðrar aðgerðir í undirbúningi, aðgerðir sem snerta álagningu lyfja og fleira í þeim dúr. En auðvitað er það fyrst og fremst verkefni fagráðuneytis á þessu málasviði eins og öðrum að koma með tillögur um þetta efni. Ég kvíði því ekki að heilbrrn. muni ekki standa við sitt í því. Ég hef engar sérstakar áhyggjur af því að heilbrrn. komi ekki með brúklegar tillögur í þessu efni og þá mun ekki standa á stuðningi fjmrn. eða annarra ráðuneyta eða ráðherra í þessu máli. Auðvitað er ríkisstjórnin öll samhent í því að standa vörð um fjárlögin og skila þeim árangri sem þar er ætlast til að því er varðar afgang og efnahagsleg markmið. Frá þeim hefur ekki verið hvikað.