Fullorðinsfræðsla fatlaðra

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 15:24:01 (5960)

2000-04-05 15:24:01# 125. lþ. 91.8 fundur 492. mál: #A fullorðinsfræðsla fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 125. lþ.

[15:24]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Fullorðinsfræðsla fatlaðra hefur starfað undir þeim merkjum síðan 1991 og hefur verið í sífelldri þróun. Það er rétt hjá hv. þm. að nú njóta um 320 manns þjónustu fullorðinsfræðslunnar í Reykjavík. Menntmrn. hefur komið að því með margvíslegu móti að styrkja forsendur fyrir starfi fullorðinsfræðslunnar, nú síðast með áformum um að koma henni skipulega fyrir í samstarfi við Öyrkjabandalagið og Þroskahjálp. Ráðuneytið hefur leitað eftir tilnefningum frá þessum aðilum og einnig frá félmrn. til þátttöku í nefnd sem á að undirbúa það að fullorðinsfræðsla fatlaðra verði sjálfseignarstofnun eins og aðrar símenntunarmiðstöðvar sem hér hafa verið stofnaðar á undanförnum missirum. Þannig er unnið að því að koma þessu í það horf að fullorðinsfræðslan standi jafnfætis öðrum símenntunarmiðstöðvum.

Hins vegar hefur ráðuneytið gert meira fyrir fullorðinsfræðslu fatlaðra en þessar fullorðinsfræðslumiðstöðvar almennt, m.a. þegar litið er til húsnæðismála. Eins og fram kom eru hér ýmis hús sem fullorðinsfræðslan hefur til afnota og það er ekki rétt að gefa þá mynd af þessari starfsemi að hún þurfi endilega öll að vera á sama stað. Þar er verið að sinna mismunandi starfsþáttum. En varðandi bóklega þáttinn sem hér kom til umræðu sérstaklega og hefur verið í Borgarholtsskólanum undanfarin missiri þá er stefnt að því að hann verði þar áfram á næsta vetri. Hins vegar er það vilji ráðuneytisins og hefur lengi staðið til að finna fullorðinsfræðslunni og þessum þætti í starfi hennar varanlegt húsnæði sem taki tillit til þarfa fullorðinsfræðslunnar með öðrum hætti en hingað til hefur verið unnt að gera. Það fara fram viðræður við Reykjavíkurborg um þessa þætti. Menn hafa ákveðið húsnæði í huga og einnig kemur að sjálfsögðu til álita að stuðla að því að reisa sérstakt hús fyrir þessa starfsemi. Ég tel að það sé mikilvægt að ljúka skipulagsvinnunni og koma fullorðinsfræðslunni í það skipulagshorf sem treystir hana í sessi sem einingu og nær þannig utan um þá miklu starfsemi sem þar fer fram.

Ég skil ekki almennilega hvað hv. þm. á við þegar vísað er til þess að samdráttur sé í fjárveitingum til fullorðinsfræðslu fatlaðra á þessu ári. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef, og hv. þm. ætti einnig að geta haft ef hann hefði litið á fjárlög síðasta árs og fjárlög þessa árs, voru í fjárlögum ársins 1999 84,5 millj. ætlaðar til fullorðinsfræðslu fatlaðra en á þessu ári á að verja til þessarar starfsemi 106,6 millj. kr. Þarna er um 20 millj. kr. hækkun á framlögum til fullorðinsfræðslu fatlaðra þannig að það skýtur mjög skökku við þegar hv. þm. fullyrðir að það sé verið að draga saman seglin að því er þennan þátt varðar.

Eins og ég sagði þá lítur menntmrh. á það sem sérstakt hlutverk sitt að styðja betur við fullorðinsfræðslu fatlaðra en símenntunar- og fullorðinsfræðslumiðstöðvar almennt. Við munum halda því áfram og ég stefni að því að skapa þessari starfsemi það öryggi að menn þurfi ekki að vera í þeirri óvissu sem þeir telja að stundum hafi steðjað að starfinu. En það hefur aldrei orðið neitt hlé á þessu starfi síðan 1991. Það hefur þróast og þroskast eðlilega og þar á sérstakan heiður skilinn María Kjeld sem leitt hefur starfið og tekur nú þátt í þessum undirbúningi sem við höfum lagt af stað með til að skapa fullorðinsfræðslunni betri og skýrari starfsramma en hún hefur haft til þessa.