Vörugjald af ökutækjum

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 15:57:57 (5967)

2000-04-05 15:57:57# 125. lþ. 92.1 fundur 549. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (lækkun gjalda) frv. 8/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 125. lþ.

[15:57]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur gert ágæta grein fyrir nál. sem minni hluti efh.- og viðskn. skrifar sameiginlega undir, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Rannveig Guðmundsdóttir ásamt mér. Ég ætla því ekki að hafa yfir þær röksemdir sem hún flutti hér og eru sameiginlega okkar allra.

Í stuttu máli er hér um skattalækkunarfrumvarp að ræða. Það er verið að lækka skatta, þ.e. lækka skatta á bíleigendum. Þeir sem eiga minnstu bílana standa í stað, þeir sem eiga bíla í milliflokki, með á milli 2.000 og 2.500 rúmsentímetra slagrými svo vísað sé í tæknimálið, hækka lítillega, eða um 2%, en stærsti flokkurinn lækkar um 12% og fer þá úr 65% í 45%. Með öðrum orðum, þetta er skattalækkunarfrumvarp fyrir bíleigendur.

Það er sitthvað jákvætt í þessu frv. Þar vísa ég sérstaklega til fatlaðra vegna þess að bifreiðar sérútbúnar fyrir fatlaða lækka verulega. Ég tel sérstaka ástæðu til að fagna því. Eins þykir mér rétt að fram komi að ég tel til bóta að lækka gjöld á bílum í atvinnurekstri og sérstaklega bílum sem notaðir eru af bílaleigum. Eitt af því sem að mínum dómi hefur staðið íslenskum ferðaiðnaði fyrir þrifum er hinn hái kostnaður við bílaleigu.

[16:00]

En hér lýkur eiginlega því sem ég er ánægður með í frv. vegna þess að við þær aðstæður sem við búum við nú tel ég þetta frv. og þær breytingar sem verið er að ráðast í afar óskynsamlegar. Afstaða mín er studd af áliti sem kemur bæði frá Seðlabankanum og Þjóðhagsstofnun en auk þess hafa stærstu launþegasamtök landsins, Alþýðusamband Íslands og BSRB, lýst andstöðu og efasemdum við þessa ráðagjörð.

Ég ætla að leyfa mér að vitna í þann hluta nál. þar sem við vísum í athugasemdir frá ASÍ og BSRB. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Alþýðusamband Íslands leggst eindregið gegn frumvarpinu, m.a. vegna þess að viðskiptahallinn stafi að stórum hluta af mikilli aukningu vöruinnflutnings sem hafi aukist meira en kaupmáttur og landsframleiðsla á undanförnum árum, en á síðasta ári var aukningin einna mest í bifreiðainnflutningi.

Einnig bendir ASÍ á að skattalækkun á dýrari bifreiðum gagnist fyrst og fremst þeim sem hafi efni á að kaupa dýra, stóra og neyslufreka bíla og hún auki líka á tekjuójöfnuð í landinu. Orðrétt segir í umsögn ASÍ: ,,Ef lækka á skatta telur ASÍ að lækkunin eigi fyrst og fremst að gagnast þeim tekjulægstu og elli- og örorkulífeyrisþegum.````

Í umsögn BSRB segir eftirfarandi:

,,Eðlilegt er að spyrja hvað valdi því að ríkisstjórnin beiti sér fyrir skattalækkunum á bifreiðum nú því erfitt er að koma auga á félagsleg og efnahagsleg rök sem mæla með þeim breytingum sem áformaðar eru. Þegar ráðist er í skattalækkanir er eðlilegt að forgangsraðað sé þannig að skattaívilnanir skili sér fyrst og fremst til þeirra sem mest þurfa á þeim að halda. Það er ekki gert með þessu frumvarpi. Að vísu er lagt til að skattar á bifreiðar fatlaðra lækki og styður BSRB þá breytingu. Þegar á heildina er litið koma breytingarnar mest til góða þeim sem hyggjast festa kaup á stórum og dýrum bifreiðum. Ætla má að kaupendur slíkra bifreiða séu þeir hópar í þjóðfélaginu sem hafa best efnin. Frumvarpið er því ekki kjarajafnandi nema síður sé.``

Enn fremur segir í álitsgerð BSRB:

,,Efnahagsleg rök virðast ekki mæla með þessari aðgerð fremur en hin félagslegu. Miklar líkur eru á að breytingarnar séu þensluvaldandi, auki innflutning bíla til landsins með tilheyrandi lántöku og þá einnig með þeim afleiðingum að viðskiptajöfnuður við útlönd verði enn óhagstæðari en hann nú er og er þá vart á bætandi.

BSRB hvetur til varfærni í þessum efnum og hvetur alþingismenn til að grípa til þeirra skattkerfisbreytinga einna sem eru til þess fallnar að stuðla að kjarajöfnuði í þjóðfélaginu jafnframt því sem þær treysti stöðugleika í efnahagslífinu.``

Undir þetta sjónarmið tökum við í minnihlutaálitinu og vörum mjög við þessu frv. þótt við fögnum einstökum liðum þess og sérstaklega því sem snýr að fötluðu fólki. Það teljum við vera til bóta.

Ríkissjóður verður fyrir tekjutapi sem nemur að öllum líkindum um 350 millj. kr. að óbreyttum innflutningi. Nú getur þetta hins vegar leitt til þess að innflutningur til landsins aukist. Ef það gerist mun það auka á viðskiptahalla þjóðarinnar sem er ærinn fyrir og reyndar meiri en dæmi eru um um langan aldur og hefur svo verið núna undanfarin tvö ár.

Haft er á orði að þetta sé allt gert til þess að jafna kerfið, fækka flokkum í hagræðingarskyni o.s.frv. Ég held að staðreyndin sé sú að enn eina ferðina er ríkisstjórnin að mylja undir efnafólk í landinu því það er fyrst og fremst efnafólkið, þeir sem festa kaup á stærstu og dýrustu bifreiðunum, sem munu hagnast mest á þessum ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar. Það er það sem málið snýst um fyrst og fremst. Fyrst og fremst snýst þetta mál um að mylja undir efnamesta hluta þjóðfélagsins.

Eitt að lokum, herra forseti, ég ítreka að þau rök sem ég vil gera að mínum hafa þegar komið fram í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem flytur minnihlutaálitið ásamt mér og hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur.

Það mál sem ég vildi vekja athygli á er að það er umhugsunarefni fyrir okkur hvernig við viljum haga samsetningu bílaflotans í landinu og hvaða afleiðingar þessi samsetning getur haft á öryggi á vegum landsins. Það er sagt í umræðum sem tengjast þessu máli að það sé ekki og eigi ekki að vera lengur í tísku að hafa með höndum neyslustýringu eins og það er kallað. Mér finnst neyslustýring ekki slæm og ekki óeðlilegt og reyna þá að beina neyslustýringunni inn í skynsamlegan farveg og eitt af því er samsetning bílaflotans.

Það kemur fram í ágætu riti sem var gefið út í Noregi árið 1997 þar sem þessi mál voru könnuð að það skiptir verulegu máli hvernig bílaflotinn er samsettur. Því minni sem bílarnir eru og því léttari sem bílarnir eru, þeim mun ólíklegri eru þeir til að valda öðrum tjóni. Því fleiri sem hinir stóru, öflugu drekar eru því líklegri eru þeir að valda þeim tjóni sem eru á smærri bílum. Þetta er staðreynd. Þetta kemur fram í ágætum tölfræðiupplýsingum í þessu riti og er gefið út af Transportøkonomisk institutt í Ósló árið 1997 en bókin heitir Trafikksikkerhetshåndbok.

Ég vil vekja athygli á þessu sjónarmiði en segja að lokum að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð getur ekki stutt þær lagabreytingar sem lagt er til að við samþykkjum með þessu frumvarpi.