Vörugjald af ökutækjum

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 18:06:27 (5969)

2000-04-05 18:06:27# 125. lþ. 92.1 fundur 549. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (lækkun gjalda) frv. 8/2000, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 125. lþ.

[18:06]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Reyndar flyt ég nú ekki þetta mál sem hér um ræðir en mér er sönn ánægja að svara hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur þessari spurningu.

Eins og ég hef skilið þetta mál hafa tiltölulega fáar bifreiðar verið fluttar inn í 65% gjaldflokknum hingað til, eða um 900--1.000 bílar á meðan heildarinnflutningur á fólksbifreiðum hefur verið 12--17 þúsund á hverju ári. Mikill meiri hluti þeirra bíla sem hafa verið fluttir inn í efsta gjaldflokki eða sjö af hverjum tíu hafa verið notaðir bílar sem í mörgum tilvikum hafa síður uppfyllt þær kröfur sem eru gerðar til bifreiða varðandi mengunarvarnir og nýtingu eldsneytis. Bílaflotinn hefur því verið að menga tiltölulega mikið vegna þessa.

Lækkunin úr 65% vörugjaldi í 45% er þar af leiðandi til þess fallin að draga úr innflutningi á þessum ófullkomnu bifreiðum og getur því stuðlað að því að heildarmengun frá bifreiðum minnki. Rökin eru eiginlega þau að með því að stíga þetta skref núna, með því að einfalda þetta kerfi fara menn frekar út í það að kaupa bíla sem eru með betri mengunarvarnabúnaði en að flytja inn ónýtar bifreiðar eða bifreiðar sem eru ekki með eins góðum mengunarvarnabúnaði.

Ég get líka svarað því, hæstv. forseti, að ekki var haft neitt formlegt samráð við umhvrn. varðandi vinnslu á þessu frv. af því að þeirri spurningu var einnig beint til mín.