Vörugjald af ökutækjum

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 18:35:59 (5980)

2000-04-05 18:35:59# 125. lþ. 92.1 fundur 549. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (lækkun gjalda) frv. 8/2000, JóhS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 125. lþ.

[18:35]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þingmenn Samfylkingarinnar telja jákvætt það markmið frv. að einfalda og samræma vörugjald af ökutækjum eins og hér er lagt til, en telja það ekki heppilegt miðað við ríkjandi efnahagsástand að gera þessar breytingar sem lagðar eru til með frv. Það er í samræmi við álit Seðlabankans og Þjóðhagsstofnunar sem vara sterklega við þensluhvetjandi áhrifum þeirra breytinga sem munu m.a. auka viðskiptahallann og útlán lánastofnana, kynda undir verðbólguna og draga úr sparnaði.

Við munum því ekki greiða atkvæði með frv. að undanskildu ákvæðinu er lýtur að sérútbúnum bifreiðum fyrir fatlað fólk, en þar er um að ræða örfáar bifreiðar, fimm bifreiðar og tekjutap ríkissjóðs vegna þessa er nánast ekki neitt eða mjög óverulegt, um fjórar millj. kr. sem ekki mun hafa nein áhrif á efnahagsástandið.