Norræna ráðherranefndin 1999

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 11:03:22 (5985)

2000-04-06 11:03:22# 125. lþ. 94.1 fundur 470. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1999# skýrsl, 422. mál: #A norrænt samstarf 1999# skýrsl, SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[11:03]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samstarfsráðherra Siv Friðleifsdóttur og formanni Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni, hlý orð í minn garð í tilefni formennsku minnar í Norðurlandaráði fyrir hönd Íslands.

Heimurinn breytist og mennirnir með. Það höfum við fengið að finna á mjög áþreifanlegan hátt á síðustu árum. Breytingarnar eru svo örar að við þurfum að hafa okkur öll við til að fylgjast með framförum og tækni á öllum sviðum.

Þá er vert að velta fyrir sér stöðu norræna samstarfsins og hvaða stefnu við mörkum okkur á þeim vettvangi í framtíðinni. Norðurlöndin hafa svo sannarlega verið í fararbroddi lýðræðisþjóða á Vesturlöndum og innan Evrópu og staða Norðurlandanna er afar sterk um þessar mundir þar sem þrjú Norðurlandanna hafa á síðasta ári gegnt forustuhlutverki í þremur mjög mikilvægum stofnunum Evrópu; Íslendingar í Evrópuráðinu, Norðmenn í ÖSE og Finnar í ESB. Norðurlöndin öll hafa nýtt sér þessa stöðu til að hafa sem mest og víðtækust áhrif innan Evrópu og norrænar áherslur hafa þess vegna orðið meira áberandi þar en nokkru sinni fyrr.

Alþjóðleg samskipti hafa aukist stórkostlega síðustu ár, ekki síst í stjórnmálalífi þar sem þau eru hornsteinn öryggis, friðar og efnahagslegrar velsældar. Heimurinn verður alþjóðlegri með hverjum degi og störf þingmanna sömuleiðis. Það er vandfundinn sá málaflokkur sem á sér ekki alþjóðlega hlið. Fjarskiptamál álfunnar eru á borðum sérfræðinga í Brussel, réttarfar í Strassborg og ákvarðanir um umhverfisvernd eru teknar innan ramma alþjóðlegrar umfjöllunar og lagasetningar um umhverfismál. Löggjöf ríkja verður æ alþjóðlegri og störf þjóðþinga taka ríkara mið af því.

Stækkun og aukið vægi Evrópusamvinnunnar er ekki ógnun við norræna samvinnu heldur örvun. Norðurlandaráð er form á svæðisbundnu þingmannasamstarfi sem hefur vakið athygli víða og orðið öðrum til eftirbreytni, t.d. við stofnun Eystrasaltsráðsins og Norður-Írlandsþingmannaráðsins. Menningarsamstarf Norðurlandaráðsþjóðanna hefur aldrei verið jafnmikilvægt og nú á sama tíma og áherslan á alþjóðlega samstarfið eykst.

Ég vil sérstaklega nefna sjónvarpsmálin en mjög lengi hefur verið mikill áhugi á að auka samvinnu Norðurlandanna þar en minna orðið úr en áformað hefur verið. Einkum er nauðsynlegt að marka skýra stefnu í þessum málum og gera það kleift að ná sjónvarpsútsendinum norrænu stöðvanna alls staðar á Norðurlöndum ásamt því að auka samvinnu í dagskrárgerð sem stenst samkeppni við það sem best er gert í veröldinni allri. Það hefur aldrei verið brýnna en einmitt núna að þessum þætti sé sinnt af alvöru á sama tíma og tungumál Norðurlandanna eiga í vök að verjast gagnvart erlendum áhrifum. Allar Norðurlandaþjóðirnar eru á sama báti hvað það snertir og við erum öll mjög meðvituð um það hve djúpar rætur tungumálið á í menningu okkar. Þetta tvennt, tungumál og menning, verður ekki aðskilið. Þess vegna er nauðsynlegt að leggja enn ríkari áherslu á málskilning milli Norðurlandaþjóðanna, einkum hjá börnum og unglingum, og rækta á þann hátt sameiginlegan menningararf Norðurlandanna.

Í þessu sambandi er vert að geta þess að í sumar verður haldin í Reykjavík æskulýðsráðstefna. Hún er skipulögð af frjálsum félagasamtökum á Norðurlöndum og hér á Íslandi er það Ungmennafélag Íslands sem sér um undirbúninginn. Lögð er mikil áhersla á að fá sem mesta þátttöku víðs vegar að á Norðurlöndunum og sérstaklega frá jaðarsvæðunum og hinum dreifðu byggðum. Þess er vænst að þátttakendur verði 3--4 þúsund talsins og ég held að óhætt sé að segja að þetta sé langstærsti viðburður af þessu tagi sem nokkurn tíma hefur verið staðið fyrir á Norðurlöndunum og mikið gleðiefni að þessi ráðstefna verður haldin á Íslandi.

Ég nefni líka hinn mikilvæga þátt í norrænni samvinnu á sviði menntunar og rannsókna sem ásamt menningarsamvinnunni eru kjarninn í norrænni samvinnu. Þar brennur mjög á að ryðja úr vegi ýmsum hindrunum sem t.d. íslenskir námsmenn reka sig á þegar þeir nema á Norðurlöndunum. Þrátt fyrir gagnkvæma viðurkenningu á menntun á milli Norðurlandanna hefur komið í ljós í ríkara mæli en menn töldu að þar þarf að bæta úr og þar er verk að vinna og það var mjög mikil áhersla á þennan þátt á Norðurlandaráðsþinginu í Stokkhólmi í haust.

Grundvallaratriðið í starfi Norðurlandaráðs hlýtur líka að vera að stuðla að friði, öryggi og stöðugleika í Evrópu. Á öryggismálin ættu menn ekki aðeins að líta frá hefðbundnu, hernaðarlegu sjónarhorni í ljósi þess að kalda stríðið er að baki, heldur reyna að finna og ráðast að rótum þess vanda sem veldur deilum og gæti leitt til átaka. Það ber að styrkja norrænt samstarf á vettvangi friðargæslu, mannúðar og hjálparstarfs.

Einnig væri gagnlegt að gangast fyrir umræðu, ekki aðeins á norrænum vettvangi, um stefnumörkun um málefni minnihlutahópa, flóttamanna og innflytjenda og sér í lagi í ljósi uppgangs nýnasista en þau mál hafa verið mjög í brennidepli á Norðurlöndum, einkum í Svíþjóð og Danmörku.

Hlutar Norðurlandanna eru heimskautasvæði og hlutar þeirra liggja að Barentshafi og Eystrasalti. Áherslur í alþjóðasamstarfi verða að taka mið af þessu ásamt að efla tengslin við Vestnorræna ráðið.

Verkefnin í austurvegi felast m.a. í að efla lýðræði, mannréttindi, dóms- og réttarkerfi, festa lögmál markaðarins í sessi, tryggja aðgang að menntun og heilsugæslu og stuðla að skynsamlegri nýtingu auðlinda. Aukin áhersla á efnahags- og umhverfismál kallar á aukin tengsl á milli vestnorræna svæðisins og annarra hluta Norðurlanda. Á heimskauts- og Barentssvæðunum þarf að styðja frumbyggja til að standa vörð um og þróa menningu sína. Norðurlöndin eiga áfram að styrkja samstarf sitt sem tekur mið af heildarhagsmunum svæðisins og metnaðarfullum markmiðum í umhverfismálum.

Finnar komu því til leiðar innan Evrópusambandsins á formennskuári sínu í fyrra að tillögur þeirra um norðlægu víddina yrðu teknar inn í framkvæmdaáætlun ESB. Þeirri vinnu verður lokið í sumar og á fundi Noðurlandaráðs í Helsinki í janúar sl. gerði Lipponen, forsætisráðherra Finna, þingmönnum Norðurlandaráðs grein fyrir hvernig þessi vinna stendur. Verður forvitnilegt að sjá árangur hennar þegar framkvæmdaáætlunin liggur fyrir í sumar.

Herra forseti. Í þekkingarsamfélagi nútímans skiptir sköpum um efnahagslega velferð þjóða, hvernig staðið er að menntun og rannsóknum. Í þeim efnum dugar ekkert annað en það besta. Þess vegna eru menntun og rannsóknir mikilvægustu mál framtíðarinnar til að standast öðrum þjóðum snúning í harðri alþjóðlegri samkeppni. Samvinna í menntamálum hefur skipað stóran sess í norrænni samvinnu. Miklu skiptir eins og ég nefndi áðan að háskólastúdentar geti farið óhindrað á milli Norðurlandanna til að stunda nám. Ráðstefna Norðurlandaráðs um þekkingu og vöxt á Norðurlöndunum í mars sl. setti menntamálin og rannsóknirnar í enn sterkara kastljós en áður á norrænum vettvangi. Þar var fjallað um þessi mál í mjög víðu samhengi og í brennidepli voru menntun, rannsóknir, nýsköpun í atvinnulífnu og samkeppnisstaða Norðurlandanna.

Norrænt samstarf hefur í tímans rás fyrst og fremst byggt á sameiginlegum menningararfi norrænu þjóðanna. Á þeim tíma sem nú fer í hönd, tíma þar sem aukin samvinna þjóða og hnattvæðing er lykilatriði er alltaf best að vera sjálfum sér trúr og þekkja þann jarðveg sem maður er sprottinn úr. Það er gæfuríkast að kannast við og virða þann menningararf sem okkur er fenginn í hendur.

Stundum er sagt að nóbelsskáld okkar Íslendinga, Halldór Laxness, sé íslenskari en allt sem íslenskt er. Fáir nútíma Íslendingar hafa gefið heiminum stærri verðmæti en hann. Um það vitnar sú viðurkenning sem hann hefur hlotið fyrir skáldverk sín og útbreiðsla bóka hans. Halldór ferðaðist mikið um heiminn. Fáir hafa verið trúrri uppruna sínum en hann.

Ég nefni þetta til að undirstrika þá staðreynd að það sem á við í lífi einstaklings á einnig við um líf þjóða. Norðurlöndin hafa borið gæfu til þess að standa trúan vörð um þann menningararf sem fortíðin hefur skilað og skyldi það ekki vera meginástæða þeirrar velmegunar og traustu og góðu stöðu sem þau búa við í nútíðinni. Að fortíð skal hyggja er framtíð skal byggja. Ef til vill getum við séð ákveðnar hliðstæður í víkingatímanum og þeim tímum sem við lifum nú. Víkingatíminn var blómaskeið á Norðurlöndum og einkenndist af því að þjóðirnar sköruðu fram úr öðrum í krafti þekkingar og tækni.

Norðurlandabúar réðu yfir mikilli þekkingu og færni í siglingum. Þeir áttu mikil viðskipti og blómleg við aðra íbúa álfunnar og fluttu heim með sér hvers kyns þekkingu og reynslu. Þetta var forsenda aukinnar þekkingar og framfara og veitti þeim í raun yfirburðastöðu í Evrópu. Allt gat það í sjálfu sér ógnað þeim gildum sem þeir byggðu á heima fyrir en hafa ber í huga þegar við stöndum á þröskuldi nýrrar aldar og samskiptatækni þekkingarsamfélagsins þeytir okkur á fljúgandi ferð inn í óræða framtíð, blasir þá ekki áþekk mynd við í nútímanum í smækkandi heimi og birtist í síharðnandi samkeppni milli þjóðanna í að tileinka sér þá fjölmörgu möguleika sem felast í tækninýjungum og vísindalegri þekkingu og uppgötvunum? Það hefur góðu heilli einkennt Norðurlandaþjóðirnar hve mikið þær hafa lagt upp úr menntun og þekkingu. Þess vegna standa þær vel að vígi í því að nýta sér tæknina. Óvíða í heiminum er tölvueign meiri, internettenging almennari og farsímanotkun algengari. Norðurlöndin standa framarlega í hátækniiðnaði og eru fyrirtæki eins og Nokia og Ericsson glöggt dæmi um það svo að einhver séu nefnd af mörgum.

Menntun og rannsóknir eru forsenda framfara og velmegunar. Það er ófrávíkjanleg staðreynd að beint samband er milli menntunar og efnahagslegrar velmegunar. Reyndin sýnir svo að ekki verður um villst að þær þjóðir sem hafa lagt áherslu á að mennta þegna sína standa best að vígi í alþjóðlegri samkeppni. Þær bera mest úr býtum efnahagslega og eru þess vegna hæfastar til að skapa þegnum sínum þá farsæld og lífshamingju sem maðurinn hefur frá fyrstu tíð sóst eftir og leitað að.

Alþjóðleg samvinna á sviði vísinda fer nú ört vaxandi. Sýnt er að þjóðfélagsþróun næstu aldar byggist fyrst og fremst á skipulegri hagnýtingu þekkingar á öllum sviðum þjóðfélagsins. Þekkingarþjóðfélagið tekur við af iðnaðarþjóðfélaginu á nýrri öld. Flestir gera sér nú grein fyrir að engin þjóð getur ein og sér skapað og náð tökum á því að hagnýta á hagkvæmastan hátt alla þekkingu sem hún þarfnast. Þjóðir verða að skipta sér verkum eða eiga með sér samvinnu til að leysa verkefni hvort sem er á sviði hátækni og geimvísinda, læknisfræði og heilbrigðisþjónustu, orkumála, efnahags- og atvinnumála, umhverfismála, náttúruauðlinda, öryggismála, þróunarmála og margs fleira. Margir hafa vaxandi áhyggjur af áhrifum mannsins á veðurfar og fjölbreytni lífríkisins á jörðinni.

Ráðstefna Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í mars sl., þekking og vöxtur sýndi á glæsilegan hátt hversu vakandi og meðvitaðar Norðurlandaþjóðirnar eru um að halda forustu sinni í samfélagi þjóðanna á sviði mennta, vísinda og rannsókna. Ég vil sérstaklega leggja áherslu á nauðsyn þess að ráðstefnunni sé fylgt eftir af miklum krafti.