Norræna ráðherranefndin 1999

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 12:04:28 (5993)

2000-04-06 12:04:28# 125. lþ. 94.1 fundur 470. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1999# skýrsl, 422. mál: #A norrænt samstarf 1999# skýrsl, umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[12:04]

Ráðherra norrænna samstarfsmála (Siv Friðleifsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka umræðurnar um skýrsluna um norrænt samstarf í dag. Ég tel að þær hafi verið afar góðar. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni, formanni Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, fyrir hlý orð í minn garð og þá skýrslu sem hann flutti fyrir hönd Íslandsdeildar Norðurlandaráðs. Hún var mjög yfirgripsmikil og lýsandi fyrir starfið í deildinni. Ég vil einnig taka undir með þeim þingmönnum sem hér hafa talað og drepa á ýmis atriði sem fram komu í máli þeirra.

Í fyrsta lagi vil ég taka undir með hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur sem ræddi í fyrri ræðu sinni um ýmislegt sem snýr að mennta- og menningarmálum. Hún minntist á æskulýðsráðstefnu sem haldin verður á Íslandi seinna á árinu. Í máli þingmannsins kom fram hve mikilvægt er að við hlúum að rótum okkar, menningararfinum og þá sérstaklega unga fólkið. Þetta hefur verið rætt á norrænum vettvangi, þ.e. hve mikilvægt er að standa vörð um það að vera norrænn og það að tilheyra þessari menningarheild til að standa sterkari í alþjóðavæðingunni sem dynur í dag á öllum ríkjum heimsins.

Í norrænu samstarfi hefur verið lögð mikil áhersla á menningarsamstarf og það að virkja ungt fólk, börn og unglinga. Á síðustu árum hefur verið t.d. verið tekið upp ýmislegt nýtt svo sem Nordjobb og Nordplus. Samskipti hafa aukist milli vinabæja og samskipti barna og unglinga hafa aukist á sem flestum sviðum. Það er mjög ánægjulegt og brýnt vegna þess að margt annað glepur unga fólkið í dag. Heimurinn er að minnka. Það er miklu ódýrara t.d. að fara til annarra landa, fljúga til útlanda. Fjölmörg tækifæri eru fyrir ungt fólk til að skoða heiminn. T.d. er vinsælt að fara sem ,,au pair`` til annarra landa, því miður ekki svo oft til Norðurlandanna heldur til fjarlægri landa. Ungt fólk fer í sólarlandaferðir og alls konar ævintýraferðir og en hoppa þá gjarnan yfir Norðurlöndin og fara eitthvað lengra í burtu. Ég tel því mjög mikilvægt að norræna samstarfið standi sterkan vörð um barna- og ungmennaskipti og það samstarf sem á sér stað á þeim vettvangi.

Hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir ræddi einnig um fjármálin. Það gerðu fleiri þingmenn. Eins og fram kom í fyrri ræðu minni fara um 70% af fjárlögunum í hefðbundið norrænt samstarf. 20% fara til nærsvæðanna og 9% til Evrópumála. Það er athyglisvert að skoða þessar tölur vegna þess að stundum er sagt að norrænu fjárlögin séu stíf og ósveigjanleg. Þó er varla hægt að taka undir það þegar maður sér t.d. að 20% af fjárlögunum fer til nærsvæðasamstarfsins. Til þessa samstarfs fór ekkert fyrir nokkrum árum síðan þannig að í staðinn fyrir 0% fara 20% af fjárlögunum til nærsvæðasamstarfsins.

Það hefur verið pólitísk samstaða um þessar breytingar vegna þess að ástandið á nærsvæðunum, sem eru aðallega Eystrasaltsríkin og Rússland, hefur verið þannig að menn hafa viljað leggja áherslu á samstarf við þessi ríki sem nýlega hafa öðlast meiri lýðræðisleg réttindi heldur en þau hafa búið við í áratugi. Þau eru nú frjáls. Þetta hefur orðið til þess að við í vest-norðri höfum orðið svolítið út undan eins og hér var einnig dregið fram. Ég tek undir það. En það hefur verið pólitísk sátt um þessar breytingar vegna stöðunnar í Eystrasaltsríkjunum og nærsvæðum okkar. Við höfum hins vegar lagt áherslu á það í formennskuprógrammi okkar að reyna að draga svolítið fókusinn til vest-norðurs með dagskrá okkar ,,Fólk og haf í norðri``. Það hefur tekist að mörgu leyti. En ,,vísmannsgrúppan`` eða aldamótanefndin, sem þingmenn hafa einnig komið inn á, skoðar sérstaklega áherslur í norrænu samstarfi á nýrri öld og hvernig beina skuli áherslum okkar í nærsvæðasamstarfinu á næstu öld. Það verður mjög spennandi að sjá hvað kemur út úr því.

Af fjármagninu fara 9% til Evrópumála og það er líka áherslubreyting. Ljóst er að mikil umræða hefur verið um Evrópumál á vettvangi norræns samstarfs að undanförnu og svo mun verða áfram. Hingað til hafa menn ekki viljað tala um svokallaða blokk, að Norðurlöndin vilji fari í einhverja blokk í evrópsku samstarfi, en það er að breytast núna í dag. Stöðugt fleiri tala um að með því að fleiri lönd komi inn í Evrópusambandið muni svæðabundið samstarf aukast. Það verður að aukast og því er alveg ljóst að Norðurlöndin munu fara að vinna nánar saman á vettvangi Evrópusambandsins en við höfum séð hingað til. Eðli málsins samkvæmt munu þau gera það af því að það er æskilegt til að hafa meiri áhrif innan Evrópusambandsins. Eins og allir vita er norræna samstarfið okkar gluggi inn í Evrópusamstarfið. Við getum haft mjög náin samskipti við þrjú norræn ríki sem eru líka í Evrópusamstarfinu, þ.e. Finnland, Svíþjóð og Danmörk. Þannig verður það seint nógu vel undirstrikað að norræna samstarfið er leið fyrir okkur inn í þá miklu pólitísku umræðu og starf sem á sér stað innan Evrópusamstarfsins.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir kom inn á að norræna samstarfi væri afar mikilvægt, t.d. vegna ráðstefna sem væru haldnar á norrænum vettvangi. Hún tók fram að ekki kæmust allir þangað og því væri mikilvægt að við ræddum meira á vettvangi Alþingis um Norðurlandasamstarfið. Ég tek undir það. Norrænt samstarf er mikilvægt. Ég vil tvinna það aðeins inn í umræðuna um fjárlögin. Það er ljóst að við borgum 1% af fjárlögum á norrænum vettvangi. Núna fara 741 millj. danskra króna til þessa samstarfs, þ.e. 7,5 milljarðar íslenskra kr. Við borgum 1% af því. Við höfum aðgang að öllu styrkjakerfinu á norrænum vettvangi sem er afar mikilvægt. Norrænt samstarf frjálsra félagasamtaka er styrkt þannig að íslensk frjáls félagasamtök hafa þarna aðgang. Umfangsmikið menningarsamstarf er styrkt og svo er pólitíska samstarfið einnig afar mikilvægt, t.d. á sviði embættismannanefndanna sem hafa í gegnum norræna samstarfið getað komið með ýmsar nýjar áherslubreytingar í sambandi við lagatexta. Norræna samstarfið er uppspretta okkar í sambandi við undirbúning að nýjum lögum. Ég vil líka nefna pólitískt samstarf á vettvangi stjórnmálamannanna sjálfra en eins og hér kom fram í máli hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur þá víkkar norræna samstarfið sjóndeildarhringinn. Ríkin þurfa að fást við svipuð vandamál og því er þetta pólitíska samstarf á vettvangi stjórnmálanna afar mikilvægt.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir spurði einnig út í útfærslu á norðlægu víddinni eða hvernig aðgerðaráætlunin sneri að okkur varðandi norðlægu víddina. Ég vil taka undir hrós hv. þm. til Finnanna sem komu þessari hugmynd inn í umræðu á norrænum vettvangi og á vettvangi Evrópusambandsins. Fyrir tveimur árum síðan vissi ekki nokkur maður hvað norðlæga víddin þýddi. Í dag vita það mjög margir og skilja út á hvað hún gengur. Norðlæga víddin snýr að því að gera aðgerðaáætlun í umhverfismálum og efnahagssamstarfi og minnka þá félagslegu gjá sem er á milli Norðurlandanna og ríkjanna í austri, þ.e. Eystrasaltsríkjanna og Rússlands. Fyrir okkur er það mjög mikilvægt öryggisatriði að þessi velferðargjá minnki og þessi ríki nái að koma á sterkari félagslegu kerfi heldur en þau búa við í dag. Það minnkar líka ásókn íbúa þeirra í að færa sig í stórum stíl á milli landa. Það er mjög æskilegt að geta komið fólki til aðstoðar við að bæta kjör þess á sínu heimasvæði. Þetta er öryggismál fyrir öll Norðurlönd, einnig fyrir okkur, en enn þá mikilvægara fyrir okkur tel ég umhverfissamstarfið.

Fyrir okkur er mjög mikilvægt að bæði í Eystrasaltsríkjunum og ekki síður í Norðvestur-Rússlandi verði tekið til hendinni. Á Kólaskaga --- norðlæga víddin snýr að því líka --- þarf t.d. að leysa ákveðin umhverfisvandamál. Við Kólaskaga mara kafbátar sem úr getur lekið geislavirkur úrangur. Fyrir hagsmuni okkar í sjávarútvegi er afar mikilvægt að þar verði ekki umhverfisslys, t.d. á Kólaskaga eða í Barentshafinu. Það mundi hafa áhrif á markaði okkar.

[12:15]

Við styðjum því svo sannarlega norðlægu víddina og viljum að hún komist til framkvæmda sem allra fyrst og nú er hún orðinn hluti af Evrópusambandsáætlunum.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir og hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir ræddu einnig um sérstök skilaboð varðandi fjármálin. Það er ágætt að fá brýningu en það er alveg ljóst að Ísland hefur stutt það að hækka rammanna en ekki hefur náðst sameiginleg niðurstaða um það hin seinni ár þannig að rammarnir hafa verið fastir, þ.e. þeir hafa eiginlega lækkað. Við styðjum hins vegar að hækka rammana og það mun verða skoðað á fundi samstarfsráðherranna í júní hvaða ramma við munum setja. Við munum á þeim fundi sjá tvær tillögur, önnur er sú að hækka rammana ekki og hvað það hefur í för með sér. Hin tillagan mun sýna hækkun rammans um u.þ.b. 20 millj. danskra króna og hvað slík hækkun hefði í för með sér og að sjálfsögðu koma inn fleiri ný verkefni með hærri fjárveitingum. Við munum því taka ákvarðanir í júní varðandi rammana.

Flestir sem hér hafa tekið til máls hafa fjallað um tilmæli varðandi börn og ungt fólk í dreifbýli. Ég tel mjög mikilvægt að við komum þeim tilmælum til lífs og ég mun hafa þá umræðu í huga þegar við tökum þau mál til umfjöllunar á vettvangi samstarfsráðherranna varðandi fjármögnun. Þetta er auðvitað mjög brýnt mál, sérstaklega fyrir þau lönd þar sem mikið dreifbýli er eins og fyrir okkur Íslendinga og löndin í norðvestri. Þessar áherslur falla mjög vel að þeim áherslum sem við höfum sett í formannsprógrammi okkar á síðasta ári. Ég fullvissi hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur um að alveg sé hægt að treysta a.m.k. á þá er hér stendur til að fylgja þessu eftir.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, segja nokkur orð um aldamótanefndina sem hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir spurði út í, hvernig mál stæðu varðandi aldamótanefndina sem Jón Sigurðsson, bankastjóri Norræna fjárfestingarbankans leiðir. Sú nefnd á að greina sameiginlega þætti sem einkenna þjóðfélagsþróunina á Norðurlöndum og hvernig við getum aðlagað norrænt samstarf að því, öllum þeim nýjungum sem við stöndum frammi fyrir við þessi aldamót.

Nefndin mun skila hugmyndum sínum inn á netið sennilega í maí, eða bráðlega, og þá geta allir skoðað hugmyndirnar sem nefndin hefur. Búið er að kynna þær hugmyndir fyrir þeirri er hér stendur í tólf atriðum, svona eins og klukkan slær, og það er margt mjög spennandi sem nefndin er að skoða, ýmislegt sem snýr sérstaklega að okkur t.d. umhverfismál í Norður-Atlantshafi og auðlindanýtingu. Ég vil því hvetja hv. þingmenn sem hafa sérstakan áhuga á norrænu samstarfi og reyndar alla í samfélaginu til að kynna sér á netinu vinnu nefndarinnar og koma með ábendingar, því ætlast er til þess að menn komi með ábendingar. Síðan munum við að öllum líkindum fá umræðu um þetta á Norðurlandaráðsþinginu í haust og verður mjög spennandi að sjá hvernig sú umræða þróast. Ég vil lýsa sérstakri ánægju hér að lokum, virðulegi forseti, með þau skilaboð sem hafa komið um undirbúning þingsins, Norðurlandaráðsþingsins sem við munum halda hér í nóvember í haust. Ég tel mjög mikilvægt að Íslendingar haldi þetta þing núna árið 2000 og standi vel að því og mér heyrist það vera í mjög góðum höndum undir forsæti hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur.