Norræna ráðherranefndin 1999

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 12:22:20 (5995)

2000-04-06 12:22:20# 125. lþ. 94.1 fundur 470. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1999# skýrsl, 422. mál: #A norrænt samstarf 1999# skýrsl, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[12:22]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þær skýrslur sem hér hafa verið gefnar um hið norræna samstarf, bæði af hv. samstarfsráðherra, Siv Friðleifsdóttur, og hv. 5. þm. Suðurl., Ísólfi Gylfa Pálmasyni.

Það er alveg ljóst að verið er að vinna að mjög mörgum áhugaverðum verkefnum og ég tel að við megum ekki láta deigan síga. Ég vil koma hér upp til að lýsa yfir fullum stuðningi við áframhaldandi aukna og meiri vinnu í samráði við Norðurlöndin. Ég geri mér alveg grein fyrir að þessi samvinna hefur að vissu leyti verið í svolitlum erfiðleikum síðustu tíu árin. Það fer ekki hjá því að breytt staða varðandi Eystrasaltsríkin og einnig sú breytta staða að Svíar og Finnar ganga inn í Evrópusambandið, að um stund beini menn orkunni í aðrar áttir og þess vegna höfum við kannski verið í vissum erfiðleikum og ég tel mig hafa fundið fyrir því í samfélaginu. Ef til vill hefur fólk fundið minna fyrir því í beinni samvinnu þinganna og á hinum pólitíska vettvangi, en í samfélaginu varðandi alls konar samskipti á sviði atvinnumála og jafnvel menningarmála hefur maður fundið fyrir því að áherslubreytingar hafa orðið og urðu síðustu tíu árin.

Komið hefur fram í ræðum manna að aukin samvinna austur á bóginn hefur e.t.v. kostað 20% af framlögunum, sem þó hafa staðið í stað. Þetta eru hlutir sem við verðum að horfast í augu við og gera okkur grein fyrir. Kannski er ekkert nema gott um það að segja, allir hlutir jafna sig og það opnast nýjar leiðir og nýjar víddir í slíku samstarfi. Ég held því að nauðsynlegt sé fyrir okkur núna að hefja nýja sókn í norrænni samvinnu í þessu breytta ljósi. Hlutirnir hafa jafnað sig varðandi samvinnuna t.d. hvað varðar Eystrasaltsríkin og má segja að bæði Svíar og Finnar séu búnir að taka stöðuna í sambandi við samvinnu sína og samstarf suður á bóginn við Evrópusambandið.

Í heimsóknum, t.d. í Eystrasaltsríkin, fann maður fyrir því að Norðurlöndin, sérstaklega Svíar og Danir, beindu athyglinni mjög mikið austur á bóginn og það gildir ekki bara um hina pólitísku og menningarlegu samvinnu. Ég upplifi það þannig að á síðustu árum hafi verið stríður straumur af fólki sem hafi haft áhuga á að vera með samvinnu á sviði viðskipta og atvinnumála almennt séð. Ég held að þetta sé farið að jafna sig og ný staða komin í málin, eins og ég sagði áðan. Við eigum að nota tækifærið og taka nýjan kúrs, sem ég treysti okkar fólki sannarlega til að gera, og efla okkur á nýjan leik. Vest-norræna samvinnan er góðra gjalda verð en við megum ekki haga okkur þannig í henni gagnvart hinum Norðurlöndunum að þeir líti á samstarfið við vest-norræna svæðið sem minna atriði eftir að við tökum höndum saman og vinnum á því sviði. Ég held að við verðum að passa mikið upp á það og taka þá stöðu í nýju ljósi. Við Íslendingar eigum gríðarlega möguleika og sóknarfæri í sambandi við samvinnu við Eystrasaltsríkin og höfum vissulega notað þau og eigum að gera það í auknum mæli.

Ég vil aðeins árétta þessa hluti og lýsa því yfir að ég tel að norræn samvinna, eins og komið hefur fram hjá nánast öllum ræðumönnum hér, sé hornsteinn að utanríkispólitík okkar og hana beri að efla og styrkja. Ég held að við höfum vel efni á því að setja örlítið meiri kraft í slíka vinnu á hinum ýmsu póstum. Ég fyrir mína parta er orðinn langeygur eftir því að við getum hafið nánari samvinnu á sviði fjölmiðlunar. Það er óásættanlegt að við skulum eki vera búin að koma því á koppinn að geta til jafns við möguleikana á öðrum sjónvarpsstöðvum og þá engilsaxneskum opnað sjónvarpsrásirnar á milli þannig að við getum notið beinni samskipta milli Norðurlandanna.

Enn og aftur, ég tel að ástandið í heimsmálum síðustu tíu árin hafi sett okkur í nýja stöðu í norrænni samvinnu. Nú hafa þeir hlutir sjatnað, lagt sig, og þá eigum við að taka nýja stöðu og blása nýju lífi í þá samvinnu og það held ég að sé verkefni þess fólks sem velst fyrir okkar hönd til að vinna að norrænni samvinnu í framtíðinni, og það er ekki lítið verkefni. Ég lýsi yfir stuðningi við norræna samvinnu og færi þakkir til þess fólks sem hefur unnið fyrir hönd okkar og ég er bjartsýnn á framtíðina ef haldið verður á málum eins og gert hefur verið hingað til og tekin verði ný staða í nýju ljósi.