Norræna ráðherranefndin 1999

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 12:28:26 (5996)

2000-04-06 12:28:26# 125. lþ. 94.1 fundur 470. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1999# skýrsl, 422. mál: #A norrænt samstarf 1999# skýrsl, ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[12:28]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram um þau norrænu mál sem við höfum verið að ræða og þakka hlý orð í okkar garð sem stöndum í þeirri samvinnu. Við hefðum auðvitað viljað sjá enn þá fleiri taka þátt í þessari umræðu en við því er ekkert að gera. Mörg athyglisverð sjónarmið komu hér fram og ágætis veganesti fyrir okkur sem stöndum í norrænu samstarfi að fara með á þá fundi sem fram undan eru.

Það er alveg rétt og ég fagna í rauninni þeim ummælum samstarfsráðherra, Sivjar Friðleifsdóttur, þegar talað er um fjárlög Norðurlandaráðs, að ekki hafi orðið neinar breytingar í dálítið langan tíma og ekki hafi átt sér stað raunaukning. En menn eru að skoða þau mál af mikilli alvöru núna og getur skipt norrænt samstarf miklu máli.

Við þurfum að passa mjög vel upp á að standa vörð um þær norrænu stofnanir sem hér eru eins og Norrænu eldfjallastöðina sem starfrækt er á Íslandi. Við verðum að vera á verði og passa upp á að Norræna eldfjallastöðin fái það fjármagn sem henni ber að fá, og nákvæmlega sama má segja um Norræna húsið sem er miðstöð norrænnar samvinnu hér á landi.

Það er deginum ljósara að Norðurlandaráðssamstarfið gefur okkur miklu meira en það kostar okkur. Eins og fram hefur komið í umræðunni er hin svæðisbundna samvinna okkar á Norðurlöndum fyrirmynd annarra landa varðandi svæðisbundna samvinnu. Enn og aftur þakka ég þá umræðu sem hér hefur átt sér stað og er okkur, eins og ég sagði í upphafi máls míns, gott veganesti til framtíðar litið.