Norræna ráðherranefndin 1999

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 12:30:36 (5997)

2000-04-06 12:30:36# 125. lþ. 94.1 fundur 470. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1999# skýrsl, 422. mál: #A norrænt samstarf 1999# skýrsl, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[12:30]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir kom inn á samstarfið varðandi norðlægu víddina. Það er mjög mikilvægt samstarf og eitt af því sem við Íslendingar höfum lagt mikla áherslu á á undanförnum árum. Við höfum lagt megináherslu á að Evrópusambandið kæmi að því starfi með einum eða öðrum hætti. Þess vegna vorum við mjög ánægðir þegar Finnland tók frumkvæði að því að Evrópusambandið kæmi inn í það mikilvæga starf og reyndi með því að færa áherslurnar í Evrópusamstarfinu að einhverju leyti til norðurs og vesturs. Eins og fram hefur komið í þessari umræðu, síðast í máli hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar, hafa áherslurnar á undanförnum árum flust mjög til austurs og miklu fjármagni hins norræna samstarfs verið varið í samstarf við frændur okkar og vini í Eystrasaltsríkjunum sem við höfum stutt af fullri einurð. Hins vegar höfum við viljað minna á að það skiptir líka máli að efla samstarfið í norðri, ekki síst á vesturvæng Norðurlandanna sem stundum hefur verið kallað vestnorræna samstarfið.

Það er eins með þetta mál og mörg önnur sem skipta okkur máli í Evrópusamvinnunni. Það er erfitt fyrir okkur að komast að því vegna þess að Evrópusambandið heldur sínum málum innan sinna vébanda og milli þeirra ríkja sem eru aðilar að Evrópusamstarfinu. EES-samningurinn gerir ekki beinlínis ráð fyrir því að aðildarþjóðir hans komi beint að slíku samstarfi. Möguleikar okkar hafa verið í gegnum Norðurlandasamstarfið í þessu sambandi og þess vegna höfum við lagt á það áherslu í samvinnu okkar við hin Norðurlöndin að við kæmum að þessu máli með einum eða öðrum hætti.

Við beittum okkur fyrir því á sl. hausti að haldin var sérstök ráðstefna í Brussel um norðlægu víddina fyrir forgöngu Íslendinga og íslenska sendiráðsins í Brussel. Samstarfsráðherra Norðurlandanna, Siv Friðleifsdóttir, var þar í forsvari fyrir okkar hönd. Þessi ráðstefna var afskaplega vel heppnuð. Margir tóku þátt í henni og af því starfi var verulegur árangur sem sýnir að við eigum möguleika á að koma inn í slíkt samstarf ef við höfum góðar tillögur og erum tilbúin að leggja eitthvað af mörkum.

Í framhaldi af því var haldinn sérstakur fundur í Finnlandi um norðlægu víddina. Það var í fyrsta skipti sem utanríkisráðherrum Íslands og Noregs var boðið að koma til slíkrar ráðstefnu á vegum Evrópusambandsins til að hafa þar áhrif. Það hefur ekki verið gert áður, að ráðherrum þessara ríkja hafi verið boðið að taka þátt í ráðstefnu sem þeirri. En fyrir forgöngu Norðurlandaráðs og þá sérstaklega Finnlands sem þá var í forsæti fyrir Evrópusamstarfinu var það gert. Ég tel að það hafi verið gagnlegt. Við munum leggja áherslu á það í framtíðinni að gera okkar besta til að hafa áhrif á þetta samstarf. Við erum tilbúin að leggja þar verulega af mörkum því að það hefur mikla þýðingu fyrir okkur og Norðurlandasamstarfið í heild sinni.

Ég held að hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson hafi sagt að nauðsynlegt væri að blása nýju lífi í Norðurlandasamstarfið. Ég vil ekki á nokkurn hátt draga úr því. Ég tel Norðurlandasamstarfið afskaplega mikilvægt og það starf sem er unnið á vettvangi Norðurlandaráðs mjög þýðingarmikið, ekki síst vegna þess að allt þetta samstarf skapar í reynd grundvöllinn fyrir íslenska utanríkisþjónustu til að starfa að ýmsum málum. Aðkoma okkar að mjög mörgum málum er í gegnum Norðurlandasamstarfið og þess vegna er mjög mikilvægt að rækta vel allt það samstarf hvort sem það er á vettvangi þingmanna, félagasamtaka, ráðherra, einstakra ráðuneyta, stofnana, félagasamtaka o.s.frv.

Í formennskutíð Íslands var ákveðið að rétt væri að minnast nýs árþúsunds í Norðurlandasamstarfinu með því að skipa sérstakan hóp vísra manna til að fara yfir framtíðarmöguleika og framtíðarsýn samstarfsins. Við töldum nóg komið af því að skoða skipulag, samsetningu nefnda, um hvað nefndir ættu að fjalla og hvernig ætti að breyta skipulagi Norðurlandasamvinnunar sem við höfum eytt miklum tíma í á undanförnum árum. Við töldum nær að líta til framtíðar og fara yfir möguleika Norðurlandaráðs í breyttu umhverfi, hvaða þýðingu Norðurlandaráð hefði í þessu breytta umhverfi og hvaða breytingar væru nauðsynlegar í því sambandi. Við ákváðum að fara þess á leit við Jón Sigurðsson, bankastjóra Norræna fjárfestingarbankans, að leiða þetta starf af okkar hálfu sem hann varð fúslega við. Ég tel að það hafi verið mikilvægt vegna þess að Jón Sigurðsson hefur mikla reynslu, m.a. á vettvangi stjórnmála en einnig á vettvangi stjórnsýslunnar. Þar fyrir utan er hann í forsvari fyrir eina mikilvægustu stofnun sem Norðurlandaþjóðirnar hafa komið á fót. Ég vænti mikils af þessu starfi en mér er ljóst að þegar við tölum um eflingu Norðurlandasamstarfsins og samvinnunnar milli Norðurlandanna þá verðum við jafnframt að hafa í huga að annað samstarf hefur tekið æ meiri tíma af hálfu Norðurlandanna, t.d. Evrópusamstarfið, Schengen-samstarfið og samstarf á sviði öryggis- og varnarmála. Allt þetta er nauðsynlegt að taka með í þessa mynd því að Norðurlandasamstarfið sem slíkt verður ekki aukið eða eflt aðeins á vettvangi þess sem einangraðs fyrirbæris heldur í tengslum við annað samstarf hvort sem það er nærsvæðasamstarfið í Eystrasaltinu, í kringum Norðurheimskautið, Evrópusamstarfið eða samstarfið innan Atlantshafsbandalagsins í öryggis- og varnarmálum o.s.frv. Þetta mun hafa æ meiri þýðingu í framtíðinni. Ef við viljum efla Norðurlandasamstarfið og blása í það meira lífi þá verður ekki hjá því komist að sjá það í nánu samhengi við annað alþjóðastarf.

Ég vil að lokum, herra forseti, þakka þessa umræðu og það sem hér hefur komið fram. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir það góða og mikilvæga starf sem þeir vinna á vettvangi Norðurlandaráðs og Norðurlandasamvinnunnar. Sú vinna er grunnurinn í því samstarfi, þ.e. þingmannasamstarfið og án þess væri Norðurlandasamstarfið ekki svipur hjá sjón. Mikilvægt er að skilningur sé á því ekki aðeins hér á Alþingi heldur í þjóðfélaginu almennt.