Norræna ráðherranefndin 1999

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 12:40:26 (5998)

2000-04-06 12:40:26# 125. lþ. 94.1 fundur 470. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1999# skýrsl, 422. mál: #A norrænt samstarf 1999# skýrsl, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[12:40]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég er mjög ánægð með orð hæstv. utanrrh. í þessari umræðu og er fullkomlega sammála mati hans þegar hann dregur línurnar í stöðu Íslands, mikilvægi norræns samstarfs og hvernig það fléttast inn í Evrópusamstarf og annað erlent samstarf sem við tökum þátt í. Það er gott að fá kastljós á þessi mál frá öðrum sjónarhóli. Ég tek sérstaklega eftir því að Ísland hafði frumkvæði að ráðstefnu um norðlægu víddina og að Finnar höfðu forgöngu um að bjóða Norðmönnum og Íslendingum til fundar um þetta mikilvæga málefni. Þegar ég hlusta á hæstv. utanrrh. þá tengi ég þetta saman. Það gefur mér tilefni til að álykta sem svo að við getum með ákveðnu frumkvæði komið okkur inn í samvinnuna þó við stöndum formlega utan við. Vissulega er það áhyggjuefni að sumt af því sem gerist á vettvangi Norðurlandaráðs á ákveðnar rætur í Evrópusamstarfi þeirra Norðurlanda sem eru hluti af Evrópusambandinu.

Ég hef oft hlustað á félaga mína frá Noregi hafa áhyggjur af því hvernig sú þróun verður og hvaða áhrif þessi þróun hafi á norrænt samstarf. Þeir óttast að þessi tvö lönd verði að einhverju leyti út undan og þess vegna vil ég nota þetta tækifæri og spyrja hæstv. utanrrh. hvert mat hans er á svæðasamvinnu innan Evrópusambandsins og hvort, á meðan þessi tvö lönd standa utan Evrópusambandsins, möguleiki sé á að Norðurlöndin verði öflugri og eins konar svæðasamband innan Evrópusambandsins.