Vestnorræna ráðið 1999

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 13:30:07 (6006)

2000-04-06 13:30:07# 125. lþ. 94.3 fundur 388. mál: #A Vestnorræna ráðið 1999# skýrsl, 461. mál: #A ályktanir Vestnorræna ráðsins# þál. 15/125, Flm. ÁJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[13:30]

Flm. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég mun fjalla um í sömu lotu skýrslu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 1999 og síðan um þáltill. um ályktanir Vestnorræna ráðsins sem eru fluttar af nefndarmönnum þingmannaráðsins í heild.

Þjóðþing Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga stofnuðu Vestnorræna þingmannaráðið í Nuuk á Grænlandi 24. september 1985 sem samstarfsvettvang þinganna þriggja. Með því var formfest samstarf landanna þriggja, sem oft ganga undir nafninu Vestur-Norðurlönd. Á aðalfundi ráðsins árið 1997 var nafninu breytt í Vestnorræna ráðið þegar samþykktur var nýr stofnsamningur í þjóðþingum aðildarlandanna. Við þær breytingar voru einnig samþykktar nýjar vinnureglur og markmið samstarfsins skerpt.

Vestnorræna ráðið rekur nú sérstaka skrifstofu þar sem framkvæmdastjóri er Páll Brynjarsson og hefur þétt mjög starfsemi og árangur á vettvangi Vestnorræna ráðsins með dugmiklu starfi. Ástæða er til að þakka starfsmanni fyrir mjög ötult og gott starf.

Markmið ráðsins eru að starfa saman að hagsmunum þessara þriggja landa, gæta auðlinda og menningar Norður-Atlantshafssvæðisins, fylgja eftir samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna Vestur-Norðurlanda, auka samstarfið á vettvangi norrænnar samvinnu og vera þingræðislegur tengiliður milli samvinnuaðila í þessum löndum og annarra fjölþjóðlegra hagsmunahópa og ríkjasamtaka. Vestnorræna ráðið hefur í gegnum tíðina ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfis- og auðlindamál, aukið menningarsamstarf landanna og skóla- og íþróttasamvinnu, svo að fátt eitt sé nefnt.

Í Vestnorræna ráðinu sitja 18 þingmenn, sex frá hverju aðildarríki. Vestnorræna ráðið kemur saman til ársfundar sem fer með æðsta ákvörðunarvald ráðsins. Þriggja manna forsætisnefnd, skipuð þingmanni frá hverju aðildarríki, stýrir starfi ráðsins á milli ársfunda. Löndin hafa skipst á um að gegna formennsku í Vestnorræna ráðinu.

Jafnt og þétt hefur áunnist árangur í starfi Vestnorræna ráðsins á þessu 15 ára tímabili sem liðið er frá stofnun þess og þó sérstaklega undanfarin ár þar sem samstarf og samskipti Grænlands, Íslands og Færeyja hafa aukist verulega með persónulegum samböndum vegna þessa starfs og það hefur skilað sér á margan hátt inn í samskipti þjóðanna sem hafa leitt til árangurs og aukins samstarfs.

Ný Íslandsdeild var kjörin til setu 16. júní sl. og hana skipa eftirtaldir þingmenn auk þess sem hér mælir: Hjálmar Árnason varaformaður, þingflokki framsóknarmanna, Gísli S. Einarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Guðmundur Hallvarðsson, þingflokki sjálfstæðismanna, Svanfríður Jónasdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Einar Oddur Kristjánsson, þingflokki sjálfstæðismanna. Varamenn eru Einar K. Guðfinnsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Gunnar Birgisson, Ólafur Örn Haraldsson, Guðjón A. Kristjánsson og Arnbjörg Sveinsdóttir. Ritari Íslandsdeildarinnar var til 1. september Auðunn Atlason. Gústaf Adolf Skúlason var ritari frá þeim tíma til 1. desember er Jóhanna Helga Halldórsdóttir tók við starfinu. Vestnorræna ráðið hefur átt mjög gott samstarf við alþjóðaskrifstofu Alþingis og kann starfsmönnum alþjóðaskrifstofunnar þakkir fyrir ötult starf.

Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins hélt fjóra fundi á árinu. Þar var m.a. fjallað um dagskrá ársfundarins sem fram fór á Brjánsstöðum á Skeiðum í ágúst, undirbúning kvennaráðstefnu Vestnorræna ráðsins í Færeyjum í júní, lífsgildakönnun sem Vestnorræna ráðið fól Félagsvísindastofnun HÍ að gera í aðildarlöndunum, kynningarbækling Vestnorræna ráðsins sem kom út í mars og heimasíðu ráðsins sem opnuð var í apríl.

Þá ræddi Íslandsdeildin skipulega möguleika á að tengja starf ráðsins betur vestnorrænu samstarfi framkvæmdarvaldsins. Það mál var einnig til umræðu á fundi ritara með framkvæmdastjóra ráðsins og tveimur starfsmönnum frá Norðurlandaskrifstofu forsætisráðuneytisins, Snjólaugu Ólafsdóttur og Ingibjörgu Jónsdóttur, og Skarphéðni Steinarssyni, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu. Tengsl Vestnorræna ráðsins og framkvæmdarvaldsins var svo enn rætt á fundi forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins í mars sl. en í tengslum við hann heimsótti nefndin Norðurlandaráð og norrænu ráðherranefndina og sat kynningarfund um starfsemi þeirra.

Þannig hefur Vestnorræna ráðið lagt kapp á að ná betra samstarfi, betri tengingu við Norðurlandaráð og það hefur líka lagt kapp á að ná samstarfi á útfærslu til að mynda heimskautaráðsins. Því miður verður að segja að þar hefur hv. Alþingi Íslendinga nokkuð staðið í vegi fyrir eðlilegri þróun því að slaknað hefur á möguleikum Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins til að taka þátt í því samstarfi sem á sér stað í heimskautaráðinu. En Vestnorræna ráðið leggur mikla áherslu á að úr því verði bætt og þeir möguleikar verði þéttir.

Hefðbundinn ársfundur Vestnorræna ráðsins var haldinn eins og ég gat um fyrr dagana 9.--12. ágúst á Brjánsstöðum á Skeiðum. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar eftirtaldir þingmenn: Árni Johnsen, Hjálmar Árnason, Svanfríður Jónasdóttir, Gísli S. Einarsson, Arnbjörg Sveinsdóttir og Pétur H. Blöndal. Alls sóttu fimmtán vestnorrænir þingmenn frá aðildarlöndunum ársfundinn.

Samþykktur var fjöldi tillagna um jafnréttis- og menntamál á ársfundinum. Þar skorar Vestnorræna ráðið á ríkis- og landsstjórnir að beita sér fyrir aðgerðum til að auka hlut kvenna í stjórnmálum, styrkja kvennarannsóknir og rannsóknir um jafnréttismál á Vestur-Norðurlöndum, vinna að og útfæra löggjöf um fæðingarorlof, beita sér gegn ofbeldi gagnvart konum og til að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði. Enn fremur samþykkti ráðið að skora á þjóðþingin þrjú að halda ráðstefnu vestnorrænna þingkvenna með þátttöku fleiri sem vinna að jafnréttismálum. Ráðstefnuna skuli halda annað hvert ár til skiptis í löndunum þremur. Þá samþykkti ráðið ályktun þess efnis að menntamálaráðherrar aðildarlandanna setji á fót vinnuhóp sem á að koma með tillögur til að bæta aðgengi grænlenskra, íslenskra og færeyskra stúdenta að háskólamenntun á Vestur-Norðurlöndum.

Það skýtur auðvitað skökku við að þessar þrjár þjóðir hafa ekki létt róðurinn fyrir menntafólk landanna þriggja til þess að sækja í rann hvers annars, nýta nálægðina, nýta þróunina og nýta tengslin og rækta þau um leið, hlúa að auknu samstarfi þessara þriggja félaga á norðurkantinum. Það skiptir miklu máli og á þar við að aldrei kann það góðri lukku að stýra að leita of langt yfir skammt eða sækja vatnið yfir lækinn. Það á einnig að mínu mati að vera hlutverk Íslendinga að vera stóri bróðirinn í þessu samstarfi og hafa ákveðið frumkvæði og dug og til þess þurfum við að sýna bæði Grænlendingum og Færeyingum enn meiri ræktarsemi en við höfum gert til þessa. Margt hefur verið vel gert en við eigum auðvitað að rækta okkar garð fyrst og fremst, okkar slóð, okkar umhverfi og leggja höfuðáherslu á það og þá eru okkar næstu nágrannar, Grænland í vestri og Færeyjar í austri.

Í tilefni þess að árið 2000 er vestnorrænt menningarár samþykkti ráðið á síðasta ársfundi að stofna til vestnorrænna barnabókaverðlauna sem stefnt er að því að veita í fyrsta sinn á þessu ári. Eins ákvað ráðið að halda ráðstefnu um menningarmál og fer hún fram á Grænlandi í sumar í tengslum við vígslu Þjóðhildarkirkju og bæjar Eiríks rauða í Brattahlíð um miðjan júlímánuð. Ársfundurinn ákvað einnig að starfsárið 2001 hjá Vestnorræna ráðinu yrði helgað veiðum og veiðiskap. Í því samhengi hyggst ráðið standa fyrir ráðstefnu um veiðar í löndunum þar sem m.a. verða ræddir möguleikar á því að koma á fót vestnorrænni fiskveiðirannsóknarstöð og samvinnu í menntun sjómanna. Einnig er vonast til þess að haldin verði sameiginleg sýning um veiðimenningu í löndunum þremur.

Til að mynda eru norrænu húsin í viðkomandi löndum að undirbúa slíka sýningu og það er gert að hluta til í samstarfi við Vestnorræna ráðið auk stjórnvalda í hverju landi og þess er að vænta að þarna verði um spennandi kost að ræða sem einnig er hugsaður sem kynningarþáttur í starfsemi þessara þriggja landa út á við. Til að mynda kemur til greina að sýning þessa eðlis verði fyrst opnuð í Skotlandi á hausti komanda. Menn hafa því ýmis járn í eldinum sem er afrakstur aukins samstarfs þessara þriggja landa.

Á kvennaráðstefnu Vestnorræna ráðsins í Færeyjum í sumar var fjallað um marga þætti, margar tillögur sem ég vík að síðar. Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni voru Svanfríður Jónasdóttir alþingismaður, Marita Petersen, fyrrverandi lögmaður Færeyja, Brynhildur Flóvenz frá Jafnréttisráði og Margrét Gunnarsdóttir, deildarsérfræðingur hjá Vinnumálastofnun. Rétt er að það komi fram að grunntónninn í þeim þáltill. sem Vestnorræna ráðið hefur tekið upp kom fram í ræðu íslenska fyrirlesarans, hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur, á ráðstefnunni í Færeyjum.

Um þessar mundir er verið að að ljúka undirbúningi menningarráðstefnu Vestnorræna ráðsins í Qaqartorq á Grænlandi 13.--15. júlí nk. sem verður eins og fyrr sagði í tengslum við vígslu Þjóðhildarkirkju og bæjar Eiríks rauða í Brattahlíð. Tilefni bygginganna er að 1000 ár eru liðin frá því að Leifur heppni sigldi frá Brattahlíð og uppgötvaði Ameríku og rúm 1000 ár eru liðin frá byggingu Þjóðhildarkirkju, fyrstu kristnu kirkju í Ameríku þar sem Grænland tilheyrir Ameríku jarðfræðilega. Byggingarnar eru samstarfsverkefni grænlensku landsstjórnarinnar og Vestnorræna ráðsins og verkefninu hefur verið stýrt í nafni Vestnorræna ráðsins af sérstakri nefnd, Brattahlíðarnefnd, sem hefur haft veg og vanda af undirbúningi alls þess máls frá upphafi og væntanlega til enda. Byggingarnar voru smíðaðar af Ístaki hf. hér á landi og síðan fluttar til Grænlands þar sem þær voru reistar á sl. sumri. Lokið verður við endanlegan frágang, smíði innbús og ýmissa þátta í sumarbyrjun eða nokkru fyrir vígslu húsanna um miðjan júlí. Brattahlíðarverkefnið á Grænlandi er án efa stærsta verkefnið sem Vestnorræna ráðið hefur tekið þátt í og í rauninni eina framkvæmdaverkefnið sem hefur átt sér stað í sögu Vestnorræna ráðsins.

Þær tillögur sem Vestnorræna ráðið leggur fram til samþykktar á Alþingi eru í nokkrum liðum og þess eðlis að Alþingi álykti með hliðsjón af ályktunum Vestnorræna ráðsins sem samþykktar voru á 15. ársfundi þess, að:

a. Alþingi standi fyrir ráðstefnu kvenna á vestnorrænu þjóðþingunum í samvinnu við þing Færeyinga og Grænlendinga,

b. fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, að bæta skilyrði til rannsókna á málefnum sem tengjast konum sérstaklega,

c. fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, að semja vestnorræna verkefnaáætlun um jafnrétti kynjanna,

[13:45]

d. fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, að skipa vinnu hóp sem leggi fram tillögur um sameiginlegar aðgerðir í vestnorrænu löndunum til að stöðva ofbeldi gegn konum,

e. fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði,

f. fela ríkisstjórninni að vinna að því að stofna sjóð eða koma á öðru fyrirkomulagi sem greiði allan kostnað af fæðingarorlofi,

g. fela menntamálaráðherra, í samvinnu við menntamálaráðherra Færeyja og Grænlands, að stofna vinnuhóp sem hafi það verkefni að rannsaka hvað hindrar vestnorræna stúdenta í að stunda nám í öðrum vestnorrænum ríkjum.

Þetta eru marksæknar tillögur, að mörgu leyti róttækar, en í takt við tíðarandann og eðlilega þróun. Það er von Vestnorræna ráðsins að þær fái brautargengi hjá framkvæmdarvaldinu því fyrst og fremst eru tillögurnar ábending og ósk til viðkomandi ríkisstjórnar um upptöku á tillögunum og framgangi mála.

Þegar kemur að tillögunni um ráðstefnu kvenna á vestnorrænu þjóðþingunum er það svo að vestnorrænar konur hafa haft samstarf á mörgum sviðum undanfarin ár. Staða kvenna í þessum löndum er að mörgu leyti svipuð, þar á meðal aðstaða þeirra til þátttöku í stjórnmálum. Vestnorræn samfélög hafa í gegnum tíðina verið veiðisamfélög og hefur það skapað vestnorrænum konum sérstakt umhverfi, ólíkt því sem gerist í iðnaðarsamfélögum annarra norrænna ríkja.

Veiðimannasamfélagið hefur að mörgu leyti farið á mis við eðlilega þróun í menntakerfi lands okkar. Að sumu leyti má segja að við höfum byggt menntakerfi okkar upp í takt við iðnaðarsamfélag en ekki veiðimannasamfélag. Það kann að gefa ýmsar skýringar á misræmi sem er í dag á milli stöðu þéttbýlis og dreifbýlis en ekki skal farið nánar út í þá sálma hér. Þetta hefur hugsanlega leitt til þess að þátttaka vestnorrænna kvenna í stjórnmálum er minni en gerist annars staðar á Norðurlöndum. Því er áríðandi að skapa vettvang fyrir vestnorrænar konur í stjórnmálum þar sem þær geta skipst á hugmyndum og miðlað af reynslu sinni og styrkt þannig samvinnuna sín í milli. Það er jafnmikilvægt að draga fram og marka sérstöðu kvenna í veiðimannasamfélaginu eins og er svo víða ríkjandi á Íslandi án þess þó að það hafi verið tekið til sérstakrar skilgreiningar eða skoðunar. Engu að síður eru sjónarmið mismunandi og það er mikilvægt í eðlilegri þróun um þátttöku kvenna í stjórnmálum að draga í miklu öflugri og sterkari mæli fram sjónarmið kvenna í veiðimannasamfélaginu sjálfu, kvenna sem eru á vettvangi, kvenna sem þekkja hræringar í því umhverfi þar sem áhættan er í rauninni meiri en annars staðar í samfélaginu sem er eðlilegur fylgifiskur veiðimannasamfélagsins.

Lagt er til að slík ráðstefna verði haldin annað hvert ár, til skiptis í löndunum þremur, eins og ég gat um áðan, og að þangað verði boðið fulltrúum frá jafnréttisnefndum, kvennasamtökum og öðrum sem starfa að jafnréttismálum, óháð kyni.

Sérstakar kvennarannsóknir, sem hafa rutt sér svolítið til rúms í umfjöllun á síðustu árum eða síðustu áratugi, hafa fyrst og fremst verið í höndum háskóla og annarra rannsóknastofnana en þessum þáttum, þessum verkefnum hefur fjölgað verulega. Þessi rannsóknarvinna er mjög mikilvæg fyrir samfélagið í heild, ekki bara konur heldur samfélagið í heild, og Vestnorræna ráðið leggur mikla áherslu á að þarna sé gengið til verka og unnið tæpitungulaust og óhikað í að draga fram áhersluþætti sem geta skapað okkur betri farveg og möguleika inn í framtíðina með virkari þátttöku kvenna ekki síður en karla. Þetta er hlutur sem hefur stundum verið einhvers konar feimnismál en er auðvitað bláköld staðreynd sem er ástæða til að horfast í augu við óhikað. Þarna er verkefni að vinna.

Rannsóknarheimildir er helst að finna í bókum, tímaritum, handritum og skýrslum en það er spennandi verkefni að kalla til, eins og ég vék að áðan, reynslu kvenna sem skipa sess reynslunnar í veiðimannasamfélögunum. Kannski hefur verið lögð einum of mikil áhersla á að menntuðu konurnar, þ.e. skólagengnu konurnar, sérfræðingarnir, hákólaborgararnir, drægju ályktanir, söfnuðu niðurstöðum án þess að leita til fólksins sjálfs og draga fram sjónarmið þess, sjónarmið þeirra sem sitja veiðimannasamfélagsmegin við borðið. Þetta er kannski það sem er mest spennandi í þessum efnum og mun gefa bæði fljótvirkari og raunhæfari svör.

Lögð er til vestnorræn verkefnaáætlun um jafnrétti kynjanna og þrátt fyrir það að á síðustu árum hafi þróunin verið hægt og bítandi verið í átt til jafnréttis kynjanna, er staða þeirra um margt ólík og hallar þar einkum á konur. Gleggsta dæmið snertir atvinnu, konur í fiskvinnslu, sem stunda til að mynda á Íslandi erfiðustu vinnu á landinu, þola mesta þrældóminn og hafa minnst úr býtum hlutfallslega miðað við álag og ábyrgð á auðlind sem skapar grunn íslensku þjóðarinnar.

Út af fyrir sig er það sérstakt verkefni að fjalla um stöðu kvenna í fiskvinnslu, þessu dýrerfiða starfi sem slítur fólk meira en gengur og gerist í öðrum störfum. Þarna er kannski við marga að sakast. Stjórnvöld, atvinnurekendur, verkalýðsfélög eiga eflaust öll sinn þátt í því að þarna hefur mörgu leyti verið flotið sofandi að feigðarósi. Þarna þarf að bylta hlutum, rífa þá upp og taka af skarið til að tryggja um leið grunn og framtíð í vinnslu og útfærslu og þróun á íslenskum möguleikum, íslenskum auðlindum, sem eiga að vera grunnur okkar inn í framtíðina.

Með gerð verkefnaáætlunar um jafnrétti væri með starfi að jafnrétti kynjanna mótuð stefna og Vestnorræna ráðið ber í brjósti vonir um að þessi vinna gæti orðið vopn í baráttunni gegn því kynjamisrétti sem er enn fyrir hendi.

Vestnorræna ráðið leggur sérstaka áherslu á það í þáltill. að auka þurfi aðgerðir til að stöðva ofbeldi gegn konum. Í allri umræðu um ofbeldi gegn konum hefur komið fram að þörf er á að styrkja þá meðferðarvinnu sem er nú þegar í boði á Vestur-Norðurlöndum. Í fyrsta lagi eru rannsóknir á konum sem beittar hafa verið ofbeldi mjög takmarkaðar, upplýsingar þar eru mjög takmarkaðar og og hafa kannski ekki verið unnar eins faglega og tilefni og ástæða gefur til með þjálfuðu fólki. Þar sem þessar upplýsingar liggja mjög takmarkað fyrir er erfitt að taka markvisst á þessum vanda og þarf meiri vinnu og meiri skipulagningu til að reyna að þétta leið þarna til varnar.

Þar að auki er lítið til af tölfræðilegum upplýsingum í þessum efnum, einkum á Íslandi og í Færeyjum. Þær eru meiri á Grænlandi þar sem danska kerfið kemur við sögu og hefur svolítið annað skipulag á í því landi, hefur til að mynda þróað upp annað kerfi en er þó í Færeyjum. Þarna geta löndin miðlað af reynslu sinni og nýtt sér upplýsingar og rannsóknir sem eru gerðar í þessum löndum.

Til að hægt verði að undirbúa aðgerðir til að stöðva ofbeldi gegn konum er fjárstuðningur nauðsynlegur. Það er lykillinn að því að finna flöt og finna farveg fyrir árangur. Þá er einnig mikilvægt að hafin verði samvinna á milli vestnorrænu landanna um meðferð og ráðgjöf fyrir konur sem hafa verið beittar ofbeldi. Ekki er síst þörf á þessu í nútímasamfélagi eins og Íslandi þó ekki væri nema með tilliti til þess að skortur á aga er tilfinnanlegur í samfélagi okkar. Í norrænu samfélögunum hefur fjarað undan ákveðnum styrk sem fylgir aga og tillitssemi þar sem menn eiga að vinna saman og taka tillit hver til annars. Þetta hefur því miður fjarað út og er sýnilegt, ekki síst í samfélagi okkar og kannski meira hjá okkur en öðrum löndum í Vestnorræna ráðinu. Því miður er það klár staðreynd að það er meira rótleysi hjá okkar unga fólki, meira sinnuleysi í þessum þáttum en hjá grönnum okkar í austri og vestri. Þarna höfum við því verk að vinna og væri bæði spennandi og mikilvægt að bera saman bækur í þeim efnum.

Af hálfu Vestnorræna ráðsins er líka lögð áhersla á að kanna sérstaklega stöðu kvenna á vinnumarkaði, fara ofan í saumana á þeim málum þar sem talsvert hefur þó verið unnið á undanförnum árum og má segja að hafi unnist hægt og bítandi. Rannsóknir á Íslandi og í Færeyjum sýna að 75% kvenna vinna úti en 85% karla. Þrátt fyrir það er launaskiptingin sú að karlar fá u.þ.b. tvo þriðju hluta af greiddum launum en konur aðeins einn þriðja. Þetta undirstrikar þörf þess að fást við þessi mál og reyna að finna þeim skynsamlegan farveg þó að kannski sé verst í þeim efnum að eiga við sjálf verkalýðsfélögin sem halda mjög fast gegn öllum breytingum, allri þróun í þessum efnum og eru íhaldssamastir allra í samfélaginu til að stokka spilin svo sanngirni sé gætt. Mætti þó nefna ýmsa fleiri sem koma við sögu.

Vestnorræna ráðið leggur mikla áherslu á löggjöf um fæðingarorlof og þar telur Vestnorræna ráðið mikilvægt að samfélagið axli ábyrgð á barnsfæðingum þar sem þær eru samfélaginu í hag. Það eru hagsmunir allra og ekki síst fámennra landa að konur haldi áfram að ala börn og því er nauðsynlegt að barnsfæðingar og barnsburðarleyfi, hvort sem feður eða mæður taka það, hafi sem minnsta fjárhagslega röskun í för með sér fyrir fjölskyldurnar.

Þá leggur Vestnorræna ráðið mikla áherslu á að tekið verði tak að skapa betra aðgengi að háskólum á Vestur-Norðurlöndum, í Færeyjum, Grænlandi og Íslandi, að samstarf landanna á þessu sviði aukist og að opnaðar verði dyr því að það hlýtur að vera spennandi fyrir námsmenn í þessum þremur löndum að eiga kost á að sækja til næstu granna ef þeir hafa betri aðstæður en þeir búa sjálfir við. Það hlýtur líka að vera kostur fyrir hvert land að geta sótt sem styst í nám og starfsmöguleika til þess að vinna gengi inn í framtíðina.