Vestnorræna ráðið 1999

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 14:01:54 (6007)

2000-04-06 14:01:54# 125. lþ. 94.3 fundur 388. mál: #A Vestnorræna ráðið 1999# skýrsl, 461. mál: #A ályktanir Vestnorræna ráðsins# þál. 15/125, ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[14:01]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka formanni Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir þá skýrslu sem hann flutti hér. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að sitja í Vestnorræna ráðinu á síðasta kjörtímabili og hafði af því mjög mikla ánægju. Það er greinilegt að mörg afar spennandi verkefni eru fram undan hjá Vestnorræna ráðinu. Reyndar kom fram hjá forseta Norðurlandaráðs, hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur, í umræðunni í morgun að hún vildi mjög gjarnan beita sér fyrir enn nánara samstarfi milli Norðurlandaráðs og Vestnorræna ráðsins og tek ég heils hugar undir það.

Ég sat þá ráðstefnu sem hv. þm. Árni Johnsen talaði um, Kvennaráðstefnuna í Færeyjum, og hv. þm. vitnaði í mjög margar ályktanir sem samþykktar voru þar. Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir flutti þar afar merkilegt erindi sem var gerður góður rómur að. Ég tek því heils hugar undir þessar tillögur og vonast til þess að þær nái fram að ganga hér í þinginu.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Árna Johnsen um lífsgildakönnunina, sem er mjög merkileg könnun, sem verið var að vinna að á meðan ég sat í ráðinu, þ.e. könnun á lífsgildum ungs fólks á Vestur-Norðurlöndum, um mismuninn á --- hv. þm. kom m.a. inn á aga fleira. Mig langar til að spyrja um niðurstöður þessarar könnunar. Hafa þær verið kynntar? Ég hef ekki orðið var við hvar það merkilega verkefni stendur í augnablikinu. Ég vissi að búið var að vinna þá rannsókn á Íslandi og í Færeyjum en það var ekki búið að fullganga frá þessu verkefni í Grænlandi. Það væri fróðlegt að vita hvar þetta verkefni stendur.