2000-04-06 14:51:00# 125. lþ. 94.6 fundur 582. mál: #A staðfesting samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2000# þál. 9/125, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[14:51]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Hér er um að ræða mál sem hv. þingmenn þekkja. Með þessari þáltill. er leitað heimilar Alþingis til staðfestingar á samningum um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2000, en þessir samningar voru undirritaðir í Þórshöfn 20. október 1999.

Á grundvelli samnings strandríkjanna fjögurra, Íslands, Færeyja, Noregs og Rússlands frá 1996, hafa þessi ríki auk Evrópubandalagsins á undanförnum árum samið árlega um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum. Á fundi aðila í Þórshöfn í október 1999 náðist um það samkomulag að hámarksafli verði 1.240 þús. lestir en var 1.300 þús. lestir árið áður. Aflinn skiptist milli aðila í sömu hlutföllum og verið hefur og koma í hlut Íslands rétt rúmlega 194 þús. lestir.

Eins og fyrr hafa aðilar í sérstökum tvíhliða samningum komið sér saman um frekara fyrirkomulag veiða, m.a. um heimild til að veiða í lögsögu hvers annars, og eru þessir samningar með svipuðum hætti og verið hefur.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.