2000-04-06 14:53:45# 125. lþ. 94.6 fundur 582. mál: #A staðfesting samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2000# þál. 9/125, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[14:53]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það þjónar hagsmunum Íslands að þessi stofn fái að byggjast upp eins hratt og nokkur kostur er. Eftir því sem minna er veitt er það að mínu mati þeim mun betra fyrir framtíð stofnsins og þar með hagsmuni Íslands og í reynd annarra þjóða. Það gerir það líklegra að stofninum takist að komast í fyrra horf, þ.e. eins og var þegar þessi stofn leitaði í miklum mæli inn í íslenska lögsögu og var uppistaða í atvinnulífi á Norðurlandi og Austurlandi.

Því miður hefur stofninn gengið inn í íslenska lögsögu í tiltölulega litlum mæli. Við teljum mjög mikilvægt að það náðist fram að þessi fiskveiðidánarstuðull lækki úr 0,15 í 0,125, en það hefur verið viðmiðunin undanfarin ár.

Ég ætla ekki að halda því fram að þessi stofn sé að hruni kominn. Svo er ekki. En við erum þeirrar skoðunar að leyfilegt aflamagn undanfarin ár hafi verið of hátt og við höfum barist fyrir því að það væri heldur lægra. Þess vegna teljum við að þarna hafi verið stigið mikilvægt skref til þess að vernda stofninn betur og teljum að þetta sé í reynd mikilvægasta nýmælið í þessum samningi til þess að tryggja skynsamlega stjórn þessa stofns til frambúðar. En því miður var mjög illa staðið að þessum málum hér fyrr á árum og varð það til þess að veiðar úr stofninum lögðust af hér á Íslandi um margra áratuga skeið. Það má ekki gerast á nýjan leik.