Fullgilding Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 15:25:54 (6031)

2000-04-06 15:25:54# 125. lþ. 94.10 fundur 586. mál: #A fullgilding Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn# þál. 13/125, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[15:25]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hvað varðar spurningu hv. 4. þm. Reykn., Rannveigar Guðmundsdóttur, þá er það þannig með stríðsglæpadómstólana vegna Rúanda og fyrrum Júgóslavíu að þeir eru settir á fyrir frumkvæði öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Það gerist því með öðrum hætti en stríðsglæpadómstóllinn sem nú er verið að koma á stofn og vonandi getur orðið að veruleika sem fyrst. Þess vegna höfum við ekki þurft að staðfesta það mál á sambærilegan hátt með því að flytja sérstaka þáltill. á Alþingi því til staðfestingar. En eftir því sem ég best veit á það samt stoð í íslenskum lögum sem hefur komið hér fyrir Alþingi, þannig að við höfum á allan hátt stutt tilvist og framkvæmd þessara dómstóla. Þeir eru afskaplega mikilvægir, bæði vegna þeirra hræðilegu brota sem áttu sér stað í þessum löndum og eins til þess að vara alla þá við sem einhvern tímann, annaðhvort munu eða hafa hugsað sér að framkvæma slík brot og glæpi gagnvart mannkyninu. Það er að sjálfsögðu ekki síst vegna þeirrar hræðilegu reynslu sem lönd hafa orðið fyrir á undanförnum árum að skriður hefur á nýjan leik komist á að koma alþjóðastríðsglæpadómstólnum á laggirnar. Ég vænti því þess að það geti orðið sem allra fyrst. En það hefur á engan hátt haft áhrif á starfsemi þessara tveggja dómstóla sem eru að vinna sitt verk og því miður er margt eftir og mikið eftir í þeirra verki.