Fullgilding Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 15:29:42 (6033)

2000-04-06 15:29:42# 125. lþ. 94.10 fundur 586. mál: #A fullgilding Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn# þál. 13/125, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[15:29]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það stendur ekkert á stuðningi okkar Íslendinga í þessum málum. En ég vil geta þess af þessu tilefni að það er jafnframt afskaplega mikilvægt að Mannréttindadómstóll Evrópu geti starfað eðlilega. Þegar ég var í því hlutverki að berjast fyrir því að Mannréttindadómstóll Evrópu fengi meira fjármagn til ráðstöfunar til þess að sinna mikilvægum málum, mannréttindamálum, ekki síst í ríkjum sem nú eru að gerast aðilar að Evrópuráðinu, en þar hefur hver einasti borgari rétt á því að senda sín mál til þessa dómstóls og ég er viss um að það verður í auknum mæli í framtíðinni, þá vakti það athygli mína að sá dómstóll hefur mun minna fjármagn til ráðstöfunar en stríðsglæpadómstóllinn vegna fyrrum Júgóslavíu. Og það sýnir hvað þetta er afskaplega kostnaðarsamt og það er jafnframt ánægjulegt að þjóðir heims hafa samt ekki látið undir höfuð leggjast að fara í þetta mál og setja upp þann dómstól. En það má ekki verða til þess að menn gleymi eða vanræki á nokkurn hátt Mannréttindadómstól Evrópu sem mér finnst að hafi ekki verið sinnt nauðsynlega og að hann hafi ekki notið þess skilnings sem nauðsynlegur er til að tryggja áframhaldandi starfsemi hans því hann er afar mikilvægur fyrir þróun mannréttinda í Evrópu og reyndar í heiminum öllum því menn líta mjög til fordæma í Evrópu í þessum málum.