Fullgilding Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 15:31:45 (6034)

2000-04-06 15:31:45# 125. lþ. 94.10 fundur 586. mál: #A fullgilding Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn# þál. 13/125, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[15:31]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. kom hér með upplýsingar sem komu mér mjög á óvart og ég tek undir þessi orð hans. Ég hafði ímyndað mér að Mannréttindadómstóllinn væri á grænni grein, hann hefði verið settur á laggirnar þannig að tryggt yrði það fjármagn sem þyrfti til að hann gæti staðið fyrir og undir verkefnum sínum. Ég hef þess vegna ekki spurt um hann. Ég hef mjög oft í umræðu um utanríkismál komið inn á stríðsglæpadómstólana og mikilvægi þeirra. Ég held ég hafi yfirleitt ekki fjallað mikið um Mannréttindadómstólinn annað en að fagna tilkomu hans. Ég tek undir það með ráðherra að það er mikilvægt að hann geti starfað með fullum þunga og að honum sé tryggður bæði stuðningur og fjármagn. Þess vegna þakka ég þessar upplýsingar og hvet hann eindregið í störfum sínum og í baráttu fyrir mannréttindadómstólum.

Það er trúa mín að þarna getum við lagt lið og að þessir dómstólar séu mjög mikilvægt tæki í friðarbaráttunni sem er svo sannarlega mikil þörf á enn í dag. Þó að við höfum trúað því fyrir nokkrum árum að við værum kannski komin að einhverjum sérstökum þáttaskilum í þeim efnum, hefur það sem verið hefur að gerast á síðasta áratug sýnt okkur að þróunin er breytileg og það þarf verulega að taka á og halda víða vel á vopnum sínum til þess að tryggja frið, bæði í okkar heimsálfu og annars staðar.