Fullgilding Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 15:33:32 (6035)

2000-04-06 15:33:32# 125. lþ. 94.10 fundur 586. mál: #A fullgilding Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn# þál. 13/125, ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[15:33]

Ásta Möller:

Herra forseti. Í haust varpaði ég fram fyrirspurn til hæstv. utanrrh. þar sem ég innti ráðherrann eftir því hvenær hann hygðist leggja fyrir Alþingi þáltill. um fullgildingu á Rómarsáttmálanum um stofnun alþjóðlegs sakamáladómstóls. Í svari hæstv. utanrrh. kom fram að unnið væri að fullgildingu sáttmálans í utanrrn. og þáltill. þess efnis yrði flutt á vorþinginu og það hefur gengið eftir og því ber að fagna. Jafnframt greindi hæstv. utanrrh. frá því að Norðurlöndin hefðu með sér samráð um fullgildingu á sáttmálanum.

Samkvæmt greinargerð með þáltill. hefur Noregur þegar fullgilt samninginn, en í svari hæstv. utanrrh. frá í haust komu fram þær upplýsingar að Danmörk og Finnland áforma að fullgilda samkomulagið nú í vor og Svíþjóð að ári liðnu héðan í frá. Í greinargerð kemur einnig fram að 29. mars sl. höfðu alls 95 ríki undirritað samþykktina, en sjö ríki hafa fullgilt hana. Til að Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn geti tekið til starfa þurfa 60 þjóðlönd að staðfesta samþykktina. Ég fagna því sérstaklega að þessi þáltill. er nú komin fram og tel mikilvægt að Ísland sé í fararbroddi að fullgilda samþykktina.

Í gegnum tíðina hafa margir alþjóðasamningar, sáttmálar og yfirlýsingar verið undirritaðar af þjóðum heims til varnar mannréttindum fólks. Þar er skemmst að minnast mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem er grundvallarsamningur þjóða á milli til verndunar mannréttindum einstaklinga, en á síðasta ári fagnaði alþjóðasamfélagið 50 ára afmæli sáttmálans. Hins vegar verður ekki hjá því komist að viðurkenna að þrátt fyrir góðan vilja, fjölmarga alþjóðlega samninga og reglur í þessa veru, hefur mannkynið iðulega staðið máttvana gagnvart mannréttindabrotum víðs vegar um heiminn.

Alþjóðasamfélagið hefur ekki haft tök á að kalla þá einstaklinga til ábyrgðar sem gerast sekir um glæpi gagnvart mannkyninu og refsa þeim. Afleiðingarnar eru öllum kunnar, glæpamennirnir sleppa og mannréttindabrotum og glæpum gagnvart saklausu fólki fjölgar. Þrátt fyrir ótrúlegar tækniframfarir, aukna velferð manna og aukinn skilning á alþjóðavettvangi á mannréttindum sem staðfestur hefur verið með fjölda alþjóðlegra sáttmála um mannréttindi, var tuttugasta öldin sú blóðugasta, mannskæðasta og ofbeldisfyllsta frá upphafi mannkyns. Heimsstyrjaldirnar tvær leiddu til dauða um 100 millj. manna og á þeim rúmlega 50 árum sem liðin eru frá lokum seinni heimsstyrjaldar hafa um 24 millj. manna látist af völdum hernaðar og annarra átaka í heiminum. Til samanburðar hefur verið metið að um 16 millj. manna létust á 19. öld og um 5,5 millj. manna á 18. öld af völdum stríðsátaka.

Á síðustu árum hefur verið ötullega unnið að því að koma á stofn alþjóðlegum sakamáladómstól til að lögsækja þá einstaklinga sem gerast sekir um alvarlega glæpi á ófriðartímum. Sem kunnugt er tekur Alþjóðadómstóllinn í Haag eingöngu á málum er varða samskipti milli ríkja, en tæki til að taka á strípsglæpum sem framdir eru á einstakingum hefur skort. Stríðsdómstólar hafa verið settir á laggirnar til að taka á einstökum málum, eins og hefur komið fram í tilviki Rúanda og fyrrum Júgóslavíu, en þeir dómstólar hafa verið settir á fót til að taka á þessum tilteknu málum en hafa ekki möguleika á að taka á mannréttindabrotum sem eiga sér stað annars staðar né koma í veg fyrir ofbeldi í framtíðinni. Alþjóðlegum sakamáladómstól er ætlað að lögsækja einstaklinga sem grunaðir eru um yfirgang, stríðsglæpi, þátttöku í þjóðarmorði eða aðra alvarlega glæpi gegn mannkyninu. Til hins síðastnefnda teljast víðtækar og skipulagðar árásir á tiltekinn hóp manna, t.d. með morðum, útrýmingu, nauðgunum, kynlífsþrælkun, þröngvuðum þungunum, mannránum eða glæpum vegna aðskilnaðarstefnu. Dómstóllinn hefur heimild til að taka upp mál með litlum fyrirvara eða beina þeim tilmælum til viðkomandi þjóðlanda að lögsækja stríðsglæpamenn. Einnig getur hann að eigin frumkvæði lögsótt stríðsglæpamenn ef tilmæli um upptöku mála í viðkomandi landi reynast árangurslaus.

Að lokum vil ég nefna að nýlega hef ég sent fyrirspurn til hæstv. utanrrh. þar sem ég óska eftir að fá upplýsingar um hvaða alþjóðasamningar á sviði mannréttinda sem Ísland hefur undirritað hafa ekki verið fullgiltir eða staðfestir af Alþingi og hver sé ástæða þess að samningarnir hafi ekki verið fullgiltir.

Af orðum mínum hér má vera ljóst að ég styð af alhug þessa þáltill. og ég vona að aðrar þjóðir komi sem allra fyrst í kjölfarið svo að Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn geti orðið sem fyrst að veruleika.