Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 16:31:39 (6043)

2000-04-06 16:31:39# 125. lþ. 94.13 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[16:31]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. starfandi landbrh. hefur farið allítarlega yfir búvörusamninginn og þó einkum auðvitað lagafrv. sem liggur fyrir að þingið fjalli um á næstu vikum.

Búvörusamningur um starfsskilyrði sauðfjárbænda hefur verið undirritaður af fulltrúum ríkis og bænda. Samningurinn er gerður til sjö ára og er í meginatriðum byggður á samþykktum bænda sjálfra hvað varðar aðferðafræðina.

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 1998 og 1999 fjallaði um hana á þeim nótum og gerði sínar samþykktir. Enginn aðili talar fremur fyrir sauðfjárbændur en heildarsamtök þeirra, það liggur í augum uppi, og innihald samningsins er mjög í samræmi við samþykktir bændanna.

Á hinn bóginn er það mála sannast og þarf ekki að velkjast í vafa um að enginn talar fremur fyrir stefnu stjórnvalda en hæstv. ríkisstjórn. Þessi niðurstaða í samningnum er byggð á málefnasamningi ríkisstjórnarinnar og samþykktum stjórnarflokkanna hvors um sig á liðnum missirum.

Þetta frv. til breytinga á búvörulögum mun lögfesta samninginn sem hæstv. ríkisstjórn og Bændasamtök Íslands hafa gert. Vissulega er hann ekki ólíkur þeim sem síðast var gerður en að hinu leytinu má líka segja að hann sé tímamótasamningur og getur vissulega orðið öllum aðilum til sóma.

Hvað varðar fjármagn til þessarar búgreinar má segja að eftir langvarandi niðurskurð og skerðingar sjái sauðfjárbændur fram á kaupmáttaraukningu. Það er nýtt orð fyrir þeim. Sauðfjárbændum sem það kjósa er gert kleift að hætta. Aðstæður eru nú allt aðrar í þjóðfélaginu en við síðustu samningagerð. Ríkið hefur meira svigrúm til samningagerðarinnar og þeir sem hætta vilja búskap hafa miklu fremur að öðrum störfum og verkefnum að hverfa í þjóðfélaginu.

Hvað varðar gæðastýringarþáttinn er stefnan tekin á sífellt aukin vörugæði og áherslu á hollustu og hreinleika. Hún er aðlögun því að í framtíðinni hlýtur kerfið að verða eitt og óskipt fyrir alla. Mín skoðun er sú að bændum verði ekki mismunað þannig að einhverjir séu í gæðastýringarkerfi, aðrir ekki heldur verði einfaldlega allir sem munu stunda landbúnað í framtíðinni, þ.e. sauðfjárrækt, í gæðastýringarkerfinu því að sjálfsögðu þurfa sömu reglur að gilda fyrir alla. Því vil ég líta svo á að þessi tvískipting sem verður til að byrja með verði vafalaust aðeins til bráðabirgða.

Samkvæmt samningnum verður tekið sérstaklega mið af beitarþoli einstakra jarða. Sauðfjárrækt verði stunduð í sátt við landið eins og flestir stunda hana að sjálfsögðu í dag þótt því miður finnist vissulega dæmi um annað. En sauðfjárrækt er ekki og verður ekki stóriðja á Íslandi. En hún getur verið lífvænleg fyrir þá sem verða helst háðir henni í tekjum á landsvæðum þar sem best er að stunda sauðfjárbúskap í dreifðum byggðum landsins. Það fer saman að í þeim byggðum þar sem örðugast er um aðra atvinnu meðfram búskapnum er landið best gróið og hentugast fyrir fjárbúskap. Aðferðafræði samningsins er á margan hátt til þess fallin að þróa sauðfjárræktina þangað sem hún á einkum heima.

Herra forseti. Það er skammt eftir af þingtímanum á þessu vori. Því heiti ég á meðnefndarmenn mína í landbn. Alþingis að stuðla að því að okkar vinnu við lögfestingu samningsins megi ljúka á skömmum tíma á þeim vikum sem eftir lifa af þessu þingi. Sjálfsagt kemur eitthvað í ljós sem betur má fara eins og gengur við lagagerð, lagasetningu, og ég hefði vissulega talið skynsamlegra að fara öðruvísi að í nokkrum greinum þessa samnings. Allir sem láta sig málið varða og hafa skoðað það og hugsað það geta vafalaust hugsað sér eitthvað öðruvísi en niðurstaðan varð svo endanleg um. En öll grundvallaratriði samningsins hljóta að standa. Samkvæmt þeim eru sauðfjárbændur að greiða atkvæði þessar vikur og að sjálfsögðu verða þeir að geta treyst því að samningnum verði ekki breytt í neinum meginatriðum. Um það er að ræða að fullgilda samning sem myndugir aðilar hafa gert.

Þessi samningur, herra forseti, skiptir byggðir landsins miklu máli, vissulega einkum dreifðu byggðirnar, en hann skiptir þjóðina öllu máli.