Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 16:41:17 (6046)

2000-04-06 16:41:17# 125. lþ. 94.13 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[16:41]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. svaraði ekki fyrri spurningunni, þ.e. hvar gæðin væru tryggð í þessu gæðastýringarverkefni þannig að ég sé ekki enn þá hvar á að tryggja gæðin í þessari upptalningu í átta liðum.

Síðan gat hv. þm. þess að margir bændur stæðu frammi fyrir ákvörðun um að hætta nú. Það er alls ekki auðvelt að hætta í sauðfjárrækt og sennilega ekki erfiðara í neinni grein að hætta vegna þess að menn hafa kannski verið að rækta upp ákveðið sauðfjárkyn og það er ekkert auðvelt að hætta því ævistarfi. Margir bændur eru hræddir við það sem tekur við þannig að þeir mundu halda áfram og svo munu þeir líka vera hræddir við allt það skrifræði sem fylgir þessari gæðastýringu eða ekki ná því vegna þess að það eru skilyrði um landnot t.d. Og hvað gerist þá? Þá munu þeir taka þessu eins og hverjum öðrum náttúruhamförum og þeir munu búa áfram eins og þeir bjuggu áfram eftir Skaftáreldana.