Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 17:06:06 (6050)

2000-04-06 17:06:06# 125. lþ. 94.13 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[17:06]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Eigi er fundinn spámaðurinn Egill. Ég vitnaði örlítið í grein þessa ágæta manns vegna þess að ég taldi að hann hefði haft aðstöðu og þekkingu til þess að meta þá þróun sem átt hefði sér stað í landbúnaði. Ég tók hins vegar fram að ég tæki ekki undir alla þá svartsýni sem hann lýsti yfir til framtíðar. Hefði ég hins vegar verið búinn að finna spámanninn Egil þá hefði ég væntanlega fyrst og fremst tekið undir framtíðarsýn hans, en það var alveg þveröfugt.

Varðandi hið eðlilega samningaferli þá er það auðvitað rétt hjá hv. þm. að það er erfitt að láta fjölda aðila taka þátt í því sem slíku. Ég greindi það hins vegar þegar síðustu samningar voru gerðir að þáv. hæstv. landbrh. gaf það vilyrði að haft yrði sérstakt samráð við landbn. í samningaferlinu.

Það var nokkuð merk yfirlýsing fannst mér hjá hv. þingmanni að stjórnarliðar, ég skildi það svo, í landbn. hefðu heldur ekki fengið að fylgjast neitt með umfram okkur stjórnarandstæðinga í nefndinni og það verð ég að segja að er nokkuð merkilegt. Ég vona hins vegar að það muni ekki tefja málið í nefndinni að þar af leiðandi sé ekki næg vitneskja um þá þróun sem átti sér stað á samningaferlinu. En á það var ég akkúrat í raun og veru að leggja megináherslu að hefði landbn. verið höfð með í ráðum og hefði komið að á vissum tímapunktum og verið upplýst um stöðu mála þá hefði átt að vera enn fljótlegra og auðveldara að afgreiða málið í nefndinni.

Ég vil síðan að sjálfsögðu taka undir það með hv. þm. að þetta mál er í eðli sínu um leið byggðamál. En það er auðvitað hægt að gera ýmislegt annað til þess að styrkja byggðir og ég tala nú ekki um hinar dreifðu byggðir í sveitum landsins öðruvísi en með beingreiðslum. Ég var, herra forseti, aðeins að rifja upp að gefnu tilefni hvað stóð í samþykktri stefnu.