Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 17:08:23 (6051)

2000-04-06 17:08:23# 125. lþ. 94.13 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[17:08]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Það var ekki neitt merkileg yfirlýsing þó að samningamenn ríkis og bænda fengju frið til þess að vinna sína vinnu án þess að aðrir væru að hlutast til um það meðan þeir voru að koma sér niður á aðferðafræðina í samningum. Hinu skal ég ekki leyna og engin ástæða er til þess, að að sjálfsögðu fylgdist ég grannt með, einkum frá áramótum, hvernig gekk og við vildum að sjálfsögðu, stjórnarmeirihlutinn á þingi ásamt ríkisstjórninni, tryggja að þingmeirihluti væri fyrir samningnum þegar kæmi að lögfestingu hans á Alþingi. Annað hefði verið óeðlilegt en að fylgjast með til þess að bændur gætu verið nokkuð vissir um að samningnum yrði ekki gjörbreytt á þingi eða hann jafnvel felldur þegar þeir væru búnir vonandi að samþykkja hann.

Herra forseti. Ég vil ekki forsjárhyggju í landbúnaði. Ég vil ekki þá forsjárhyggju að ungir bændur megi ekki hætta ef þeir vilja. Ef ungur bóndi kýs að hætta þá hættir hann og hefur öll tök á því að koma undir sig fótunum á öðrum vettvangi og það finnst mér allt í lagi að sjálfsögðu. Það eru of margir að framleiða fyrir of lítinn markað nú um stundir og þess vegna er öðrum þræði uppkaupatilboðið gert til að gera mönnum kleift að hætta. Ég vona að þeir hætti sem sjá sér hag í því en aðrir ekki og ég vona að að þeir sem eftir verða verði hæfilega margir til þess að Íslendingar geti neytt hollra og góðra matvæla. Ég segi næstum því amen eftir efninu.