Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 17:30:32 (6055)

2000-04-06 17:30:32# 125. lþ. 94.13 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, PHB
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[17:30]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér nýjan búvörusamning við fulltrúa sauðfjárbænda, ekki við sauðfjárbændur sjálfa, og okkur er sagt að þetta sé fyrir greindustu menn að skilja. Ég er ekki í þeim hópi. En ég ætla samt að reyna að fjalla um frv. þó að ég skilji það ekki til hlítar.

Herra forseti. Við lifum á nýjum tímum. Ferðalög eru orðin mjög auðveld, tölvur eru komnar á flest heimili, netið og farsímar og við upplifum tækninýjungar á hverjum degi. Og svo kemur hér inn í sali hv. Alþingis samningur lengst aftan úr fornöld, kerfi sem búið var til um miðja þessa öld sem er að líða --- hún er reyndar ekki liðin --- fullur af forsjárhyggju, herra forseti. Nú skal aldeilis haldið í hendina á bændum sem ekki kunna fótum sínum forráð. Bændur eiga að gera þetta og bændur eiga að gera hitt. Og ef þeir gera þetta og hitt fá þeir styrk frá ríkinu, ella ekki eða skertan styrk.

Enn er haldið áfram að hafa framleiðsluhvatningu í þessum búvörusamningi nákvæmlega eins og í þeim síðasta, sem ég gagnrýndi mikið þá. Í frv. stendur, herra forseti:

,,Beingreiðslur skulu vera 4.399 kr. á hvert ærgildi ...`` --- ég skil nú ekki af hverju þeir hafa það ekki 4.400, þetta er svona Hagkaupsverð á hvert ærgildi.

,,Til þess að fá fullar beingreiðslur þarf sauðfjárbóndi að eiga að minnsta kosti 0,6 vetrarfóðraðar kindur fyrir hvert ærgildi greiðslumarks ... Nái ásetningur ekki þeirri tölu skerðast beingreiðslur hlutfallslega.``

Ef menn eiga kindur hljóta þeir eðli samkvæmt að slátra kindum. Og ef þeir slátra kindum verður til kjöt, þ.e. til að fá beingreiðslur þurfa menn að búa til kjöt. Forsendan fyrir því að fá beingreiðslurnar er að menn framleiði. Og svo er verið að segja að vandinn sé sá að menn framleiði of mikið. Þetta skildi ég ekki síðast og skil ég ekki enn, en ég er sennilega ekki í hópi þeirra greindu manna sem eiga að geta skilið þetta allt til hlítar.

Herra forseti. Mennirnir við grænu skrifborðin á Hótel Sögu hafa fundið út hvernig á að auka gæði landbúnaðarframleiðslunnar. Bændur hafa reyndar framleitt kindakjöt í landinu í þúsund ár, en gæði þess hafa sennilega ekki verið nógu mikil allan þann tíma. Nú á sem sagt að fara að hjálpa þeim að auka gæðin.

Þá kemur mjög skemmtilegur kafli hérna, herra forseti, á síðu 16 í frv., sem heitir Gæðastýrð sauðfjárrækt. Þetta plagg er framleitt á grænu skrifborði, það er alveg greinilegt.

Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að lesa dálítið upp úr því til að menn átti sig á hvernig haft er vit fyrir bændum:

,,Gæðastýringin tekur til eftirfarandi þátta:

Landnota. Framleiðandinn sýnir fram á afnotarétt yfir landi, þar með talið afrétt, sem fullnægir beitarþörf alls búpenings viðkomandi bús. Nánar skilgreint í gæðahandbók.``

Hingað til höfum við haft forðagæslumenn og ítölu en nú á sem sagt að gera enn betur, herra forseti.

,,Einstaklingsmerkinga. Sauðfé merkt og skráð samkvæmt gæðahandbók.

Kynbótaskýrsluhalds. Bústofn skráður og metinn í viðurkenndu kynbótaskýrsluhaldi.

Gæðahandbóka. Hirðing og meðferð bústofns skráð samkvæmt gæðahandbók.

Búfjáreftirlits. Leggja skal fram vottorð frá búfjáreftirlitsmanni sveitarfélags um fóður, aðbúnað og ástand búfjár, samkvæmt ákvæðum gæðahandbókar. Lagt skal mat`` --- ég vil að hv. þingmenn leggi við eyrun --- ,,á ytri ásýnd býlisins, samkvæmt ákvæðum gæðahandbókar.``

Nú skal verða fallega málað ella fá menn ekki styrk. (HjálmJ: Tími til kominn.) Tími til kominn, segir hv. formaður landbn.

,,Lyfjaeftirlits. Gera skal grein fyrir kaupum og notkun lyfja á búinu.``

Nú fara að verða vandræði með magnyltöflurnar.

,,Áburðarnotkunar og uppskeru. Gera skal grein fyrir áburðarnotkun, hvernig hún er ákvörðuð og uppskera skráð af hverri spildu, sbr. ákvæðum gæðahandbókar.

Fóðrunar. Gera skal grein fyrir fóðrun og fóðurefnum (beit, heygjöf, kjarnfóðri o.fl.) sbr. ákvæði gæðahandbókar.``

Nú skal fylgjast með á vetrardögum hvar rollurnar eru að kroppa, hvort það er beitilyng, stör eða eitthvað því um líkt. Og allt á að skrá í þessa gæðahandbók.

Þetta er náttúrlega ekkert annað en skrifræði, herra forseti, skrifræði og aftur skrifræði, sem fór með Sovétríkin forðum tíð. Það er ekkert um gæði í þessu. Þetta eykur ekki gæði kindakjötsins, sem er reyndar mjög gott, gæði íslensks kindakjöts eru frábær. Það er ekkert í þessu sem eykur gæði þess eða tryggir þau --- nema ef vera skyldi að þeir menn sem eiga að hafa eftirlit með þessu komi heim að býlum og segi: Nú skaltu gera svona, vinurinn, og nú skaltu gera hinsegin. Einhver stráklingur úr Reykjavík, sem væntanlega er búinn að læra í búnaðarháskóla, ætlar að fara að segja bónda sem búinn er að starfa við þetta í 30--40 ár hvernig hann eigi að hegða sér og hvernig hann eigi að framleiða gott lambakjöt. Herra forseti. Þetta er forsjárhyggja ef eitthvað er.

Og ef menn ekki hlíta þessu fá þeir ekki greiðslur úr ríkissjóði. Þá sæta þeir skerðingu, herra forseti.

Ég spurði hæstv. starfandi landbrh. um það vandamál í sambandi við ákvörðun bænda um hvort þeir eigi að selja kvótann sinn, því að þeir vita ekki hvort þeir uppfylla þessi skilyrði um gæðastýringu fyrr en hún er komin á. Og henni er ekki komið á fyrr en eftir að tíminn til að selja beingreiðslurnar er liðinn. Menn þurfa því að taka áhættu. Þó að hv. formaður landbn. hafi sagt hér áðan að bændur væru ekki hræddir, þá er það þannig með allt fólk að það óttast að skipta um starf, svo maður tali nú ekki um starf sem það hefur kannski sinnt í 30--40 ár og telur sig jafnvel ekki kunna neitt annað. Auk þess er það tengt búsetu því að menn þurfa að flytja búferlum og skilja eftir allar eigur sínar verðlitlar eða verðlausar. Það er því ekki lítið átak að selja kvótann sinn og hætta búskap.

Margir munu óttast það og þeir munu líka óttast þetta skrifræði og ekki uppfylla það eða fara ekki í það, og þeir munu taka þessu eins og hverjum öðrum náttúruhamförum, herra forseti. Þeir hafa staðist náttúruhamfarir hingað til, skerðingu á kvóta aftur og aftur þangað til býlið er orðið svo lítið að þeir geta hvorki lifað né dáið, og nú munu þeir taka þessari 22,5% skerðingu áfram og geta ekki hætt. Þetta er grafalvarlegt mál.

Á blaðsíðu 12, herra forseti, er dæmi sem ég ætlaði að leika mér að búa til gagndæmi við, ég hef stundum gert það. Þar kemur fram þegar menn eru búnir að selja beingreiðslurnar, þá stendur:

,,Samningshafar undir stafliðum a, b, c og d skulu undirgangast kvaðir um að framleiða ekki sauðfjárafurðir á samningstímanum.``

Og nú ætla ég að búa til lítið dæmi handa hv. þm. til að hugsa um.

Segjum að einhver bóndi, Jón, eigi kvóta og selji hann --- beingreiðslurnar. Þá má hann ekki framleiða á búi sínu. Hann selur mér fjárstofninn. Og svo leigir hann mér húsin sín og selur mér hey á haustin því hann má framleiða hey. Svo er hann vinnumaður hjá mér á veturna og starfar við það að gefa þessum kindum mínum að éta.

Er hann þá að framleiða sauðfjárafurðir? Og ef sagt er: Já, þetta er á sama býlinu: Ókei, þá bara flytjum við kindurnar yfir á næsta bæ eða eitthvert eyðibýli. Þetta er dæmi um hvernig hægt er að fara í kringum þessa reglu, og ég skil nú ekki af hverju hún er þarna.

Annað vandamál með söluna á þessum beingreiðslum er: Hvað tekur við árið 2008? Þegar síðasti samningur var samþykktur þá spurði ég: Hvað tekur við árið 2000? Verða þá áfram beingreiðslur til bænda? Og ef maður reiknar beingreiðslurnar inn í verðið sem ríkið er að bjóða, þá er það 20% arðsemiskrafa. Það er ekkert voðalega skynsamlegt fyrir bónda að ganga að þessu tilboði ríkisins. En ef maður tekur bara sjö árin sem samningurinn tekur til, þá er það 9% arðsemiskrafa. En þá er ekki reiknað með því að helmingurinn af því sem ríkið kaupir leggist til viðbótar. Arðsemiskrafan er því töluvert hærri. Það er dúndurarðsemi að selja ekki. Sennilega er verðið allt of lágt.

En þá kemur það til að menn þurfa að hokra til að fá þessar greiðslur. Og það er einmitt það sem gerir þetta svo óarðbært.

Þetta mikla kerfi sem við höfum haft, herra forseti, í fjölda áratuga hefur gert það að verkum að greiðslur til bænda eru nú --- ef maður tekur allar þær greiðslur sem koma fram í þessu frv. --- 75 þús. kr. á mánuði á hvern bónda og geri ég þá ráð fyrir 2.600 bændum en þeir eru mikið færri í reynd, vegna þess að hjón hafa stundum skipt með sér beingreiðslunum og þetta hefur dreifst mjög víða. Sennilega eru bændur með beingreiðslur upp á 100 þús. kr. á hverja fjölskyldu eða hvern starfandi bónda að meðaltali á mánuði sem er meira en hann hafði í tekjur.

Þetta kerfi er búið að gera það að verkum að bændur framleiða sem sagt minna en ekki neitt. Og þessu kerfi á að viðhalda.

Þetta kerfi sem við höfum haft hér svo lengi hefur búið til fátækt, og þá mundi ég kalla það raunverulega fátækt. Fólk sem hefur það mjög slæmt, eignirnar rýrna á hverju ári og það getur hvorki lifað né dáið. Þetta fólk fer ekki í félagsmálastofnanir, það get ég fullyrt. Það er ekki búið að læra það og hefur auk þess það mikla sjálfsvirðingu að það gerir það ekki. En þetta er fólk sem er fátækt og það á að gera það enn fátækara.

Ég spyr, hvers vegna í ósköpunum var framsalið ekki heimilað strax? Af hverju í ósköpunum var það ekki heimilað við síðasta búvörusamning? Hvers vegna þurfa menn endilega að hokra? Þetta er einhver draumsýn að hafa byggð um allt land og menn eru að fórna bændum í því skyni að hafa slíka draumsýn.

Hvers vegna er þessi framleiðslukvóti? Af hverju þurfa menn að eiga 0,6 kindur, vetrarfóðraðar kindur? Hvers vegna í ósköpunum ekki bara núll komma núll kindur? Af hverju þurfa menn endilega að eiga þessar kindur til að fá beingreiðslur? Það er til þess að menn neyðist til að búa. Þeir skulu sko ekki bregða búi, blessaðir.

Þetta er allt að því mannvonska. Það á að þvinga menn til að búa en búa við sífellt lakari og lakari kjör. Ég hef hitt bónda sem sagði: Ef ég gæti keypt kvóta og ég væri með svona 600 ærgildi í staðinn fyrir þau 300 eða 200 sem ég er með, þá gæti ég búið góðu búi. Þá borgar sig að vera yfir þessu um veturinn, þá yrði ég með sæmilega afkomu. En hann má það ekki í dag. Þessi ungi maður, sem ég þekki, má ekki kaupa kvóta. Þannig er það í dag. Hann fær það ekki.

Og annar bóndi sem gjarnan vill bregða búi og selja sinn kvóta má það ekki heldur. Til hvers er þessi gæðastýring, herra forseti? Hvaða bákn er verið að byggja þar upp? Hvað er verið að gera þarna? Menn eiga að færa í bækur hér og þar og þar og hér. Til hvers, herra forseti, er þessi gæðastýring? Ég sé ekki að hún gefi nokkurn skapaðan hlut nema að hún vinsar úr þá bændur sem eiga tölvur og þeir skulu fá extra miklar greiðslur. En hinir bændurnir sem ekki eiga tölvur skulu blæða. Bændur hafa ekki allir tölvur og það eru ekki allir tilbúnir til þess.

[17:45]

Nei, herra forseti, þessi samningur er ekki góður fyrir bændur, svo maður tali ekki um skattgreiðendur. Skattgreiðendur greiða milljarða á hverju einasta ári í þetta kerfi. Uppkaupin eiga að kosta tæplega milljarð, herra forseti, á sama tíma og það vantar peninga út um allt, í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu o.s.frv. Nei, herra forseti, þessi samningur er ekki góður fyrir skattgreiðendur. Er hann þá góður fyrir neytendur? Nei, það er hann ekki. Við erum með miklar kvaðir og hömlur á innflutningi landbúnaðarvara til að halda kerfinu við þannig að hann er heldur ekki góður fyrir neytendur.

Herra forseti. Þessi samningur er slæmur fyrir bændur. Hann er slæmur fyrir skattgreiðendur og hann er slæmur fyrir neytendur. Ég er á móti honum.