Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 17:49:47 (6058)

2000-04-06 17:49:47# 125. lþ. 94.13 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[17:49]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. vitnar í Biblíuna máli sínu til stuðnings og það er vissulega gott. Hann sagði áðan að hömlur væru á innflutningi landbúnaðarafurða. Það er alveg rétt vegna þess að engin þjóð er tilbúin að fórna landbúnaði sínum fyrir frjálsan innflutning. Við erum aðilar að GATT-samkomulaginu og förum þar fram með öðrum þjóðum. Sumar þjóðir styrkja landbúnað sinn meira en við gerum. Aðrar þjóðir styrkja sinn landbúnað minna. Við erum ekkert á slæmu róli í því. Við erum heldur ekki að styrkja beinlínis landbúnað heldur erum við að gera íslenskan landbúnað samkeppnishæfan á matvælamarkaðnum.

Hvað varðar bændur, greindina og heiðarleikann, þá eru þeir líka svo skynsamir að þeir munu ekki gerast leiguliðar hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal.