Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 18:34:11 (6064)

2000-04-06 18:34:11# 125. lþ. 94.13 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[18:34]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Ég árétta að verið er að vinna eftir stefnumótandi byggðaáætlun sem samþykkt var á Alþingi og þegar hafa allmörg skref verið stigin en vissulega eru mörg fram undan í því að jafna búsetu í landinu.

Hvað varðar markaðsráðið þá er það sjálfstæð nefnd sem starfar í Bændahöllinni og erfitt að svara til um það hvernig hún sinnir starfi sínu hér. Það er væntanlega ekki okkar mál beinlínis. Ég vil árétta að markaðsmálin eru ekki okkar, hvorki embættismenn né stjórnmálamenn eiga að standa í því að selja kindakjöt.

Að gæðastýringin sé hæpin í útfærslu, þá tek ég undir það með hv. þm. Gæðastýringin er ekki mikið útfærð, það er alveg rétt. Ég hef verið að vara við því í umræðunni að hún verði ekki að einhverju óskaplegu eftirlitsbákni heldur þjóni einmitt markmiðum sínum, einföld og skýr og nái til allra en ekki bara sumra, nái sem sagt í heild yfir bændastéttina sem sinnir sauðfjárrækt en ekki að greina hafrana frá sauðunum ef svo má segja um þá sem velja annars vegar gæðastýringu og hins vegar þá sem ekki velja hana. Eðlilegt er að sama gildi um alla eftir ákveðinn umþóttunartíma.