Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 18:46:03 (6067)

2000-04-06 18:46:03# 125. lþ. 94.13 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[18:46]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem hefur verið málefnaleg. Hér hefur verið varpað fram ýmsum spurningum sem ég held að sé eðlilegast að svarað verði við meðferð málsins í nefnd. Það er hins vegar nauðsynlegt að hafa í huga sérstöðu þessa máls að því leytinu til að hér hefur verið gerður samningur við Bændasamtökin um þessi mál, samningur ríkisins við Bændasamtökin. Menn verða að sjálfsögðu að virða það að forustumenn bænda hafa fallist á að standa að málum með þessum hætti.

Auðvitað má hugsa sér að gera þetta öðruvísi, t.d. að því er varðar lífræna ræktun þá er það nokkuð sem er að þróast og kemur til með að þróast á næstu árum. Skoðanir eru skiptar eins og gengur en ég er alveg viss um að hún á framtíð fyrir sér. Ég tel alla möguleika til þess að hún geti þróast vel innan þess gæðastýringarkerfis sem menn ætla sér að koma upp, það er hluti af því. Það er náttúrlega háð því að viðkomandi bændur hafi bæði aðstæður og möguleika til að stunda slíkan búskap og það verður jafnframt að fara eftir markaðsaðstæðum og kröfum neytenda. Þar eins og annars staðar eru það neytendurnir sem ráða, þ.e. hvað neytendurnir vilja og það er mikilvægt að landbúnaðurinn og ekki síst sauðfjárræktin þróist með hliðsjón af því sem neytendur vilja fá. Ég er þeirrar skoðunar að þessi grein hafi ekki þróast nægilega til að taka tillit til þarfa og óska neytenda. Ég er alveg viss um að með þeirri breytingu sem þarna á að eiga sér stað opnast nýjar leiðir í því sambandi.

Við vitum að þessar afurðir eru misjafnar. Féð gengur á misjafnlega góðu landi. Sumt fé er meira og minna á ræktuðu landi en annað gengur upp til heiða. Við þekkjum öll mismunandi gæði þessa kjöts þó að það komi ekki alltaf fram þegar það er selt í verslunum og bændur hafa ekki að mínu mati notið þessa gæðamunar í nægilega ríkum mæli.

Allir þessir möguleikar opnast þegar þetta gæðastýringarkerfi er komið í gagnið og ég er alveg viss um að hin lífræna ræktun getur jafnframt þróast á þeim grundvelli.

Ég vil endurtaka þakkir fyrir þessa umræðu og vænti þess að hv. landbn. afgreiði málið fljótt og vel enda treysta bændur landsins á eðlilega afgreiðslu málsins hjá hv. nefnd þannig að það geti komið til endanlegrar afgreiðslu hér á Alþingi áður en þingi lýkur.