Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 19:09:28 (6069)

2000-04-06 19:09:28# 125. lþ. 94.14 fundur 236. mál: #A Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi# frv. 16/2000, Frsm. ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[19:09]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara mikið í skýrsluna sem hv. þm. Ögmundur Jónasson vitnaði í en ég tel ekkert nýtt í þeirri skýrslu sem kom ekki fram við meðferð málsins hjá nefndinni. Ég veit ekki betur en að hv. þm. Ögmundur Jónasson hafi farið með allshn. og hv. utanrmn. í Leifsstöð þar sem þessar upplýsingar komu fram. Það er því ekkert nýtt í skýrslunni nema að ég fagna því sem þingmaður Reykjaness að þeir ítreka enn og aftur mikilvægi tvöföldun Reykjanesbrautarinnar. Mér finnst ágætt að hnykkt hafi verið á því á þessari skýrslu.

En burt séð frá því vil ég aðeins útskýra varðandi þau atriði sem hv. þm. kom áðan inn á og það er þá einna helst varðandi kæruleiðir út frá ákvörðun ríkislögreglustjóra, tengdum upplýsingagrunninum, að það þurfa að vera afskaplega veigamiklar ástæður fyrir því að vikið sé frá meginreglu íslenskra laga, sem er sú, byggist á stjórnarskránni, að ráðherra beri ábyrgð á öllum stjórnarframkvæmdum. Það er algjör undantekningarregla ef á að víkja frá þeirri meginreglu að kæra beri úrskurði lægra setts stjórnsýsluvalds til æðra setts sem er ráðherra.

Þetta kemur m.a. fram í mjög góðri lesningu í skýrslu forsrh. um starfsskilyrði stjórnvalda sem ég tel vera skyldulesningu og er í rauninni kennsluefni.

Ég ræddi einnig við formann tölvunefndar um þetta mál. En ég sé að tími minn er að verða búinn og mun útskýra það í seinna andsvari mínu.