Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 19:11:41 (6070)

2000-04-06 19:11:41# 125. lþ. 94.14 fundur 236. mál: #A Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi# frv. 16/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[19:11]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er ekkert nýtt sem kom fram í skýrslunni, sagði hv. formaður allshn. Ég sé að hv. þm. Ásta Möller nikkar til samþykkis.

Þá spyr ég á móti: Þegar við fáum skýrslu frá stjórnskipaðri nefnd til að gera úttekt á áhrifum Schengen-samkomulagsins á ferðaiðnað á Íslandi, og í skýrslunni kemur fram að þetta valdi ómældu óhagræði og tilkostnaði þá spyr ég: Hver er ábyrgð hv. þm. og hver er ábyrgð hæstv. utanrrh., sem kemur ekki með nokkur einustu rök gegn þeim staðhæfingum sem við fáum í skýrslunni? Síðan er fullyrt að ekkert nýtt komi fram.

Eru menn staðráðnir í að hlusta á engin rök í málinu? Ég hef auglýst og auglýsi enn eftir rökum hæstv. utanrrh. í málinu. Búið er að færa fyrir því rök að þetta samkomulag valdi okkur ómældu óhagræði og tilkostnaði en við fáum ekki rökin á móti um hagnaðinn og kostina sem þessu eiga að fylgja.