Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 19:13:09 (6071)

2000-04-06 19:13:09# 125. lþ. 94.14 fundur 236. mál: #A Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi# frv. 16/2000, Frsm. ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[19:13]

Frsm. allsh. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að halda áfram með svar mitt sem ég var byrjuð á áðan og það er varðandi kæruleiðirnar í þessu frv. Ég ræddi við formann tölvunefndar, Pál Hreinsson, þann mikla lögspeking. Hann var alveg á þessu sama og ég er í dag, að endanlegt úrskurðarvald verði hjá dómsmrh. enda verði leitað umsagnar til tölvunefndar, væntanlegrar persónuverndar.

Til dæmis hafa Norðmenn sama fyrirkomulag. Umboðsmaður Alþingis hefur bent á og ítrekað þessa meginreglu í íslensku réttarkerfi að ráðherrar beri ábyrgð á öllum stjórnarframkvæmdum og hafi endanlegt úrskurðarvald. Það þurfi að vera sérstakar og veigamiklar ástæður fyrir því að víkja frá þeirri grundvallarreglu. Ég skil ekki svona tortryggni endalaust. Það er ekkert sem gefur tilefni til þess að tortryggja þetta, ekki neitt.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson benti einnig á að það væri svo dýrt fyrir viðkomandi að fara með málið fyrir dómstóla. Það er alveg rétt. En það verður hvort sem er, ef maður færi hina leiðina sem hv. þm. er að tala um, að tölvunefndin hafi endanlegt úrskurðarvald. Þó að tölvunefnd úrskurði í málum er stjórnsýslustigið endanlegt úrskurðarvald, það er ekki dómstóll. Eftir sem áður getur viðkomandi farið með málið fyrir dómstóla. Kostnaðurinn verður sá sami eftir sem áður.

Fleira var það ekki, herra forseti.