Þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 19:23:02 (6075)

2000-04-06 19:23:02# 125. lþ. 94.15 fundur 237. mál: #A þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu# (breyting ýmissa laga) frv. 15/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[19:23]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að hv. formaður allshn. gat um að þessar breytingar hefðu verið unnar í samvinnu við tiltekna aðila, þar á meðal Landssamband lögreglumanna. Ég vænti þess að framhald verði á þeirri samvinnu.

En ég kveð mér hljóðs til að beina spurningum til hæstv. utanrrh. sem hér hefur verið spurður ýmissa spurninga en svarar engu. Í áliti nefndar sem skipuð er af ríkisstjórninni, þ.e. af samgrh., fyrir ári síðan til að gera sérstaka úttekt á Schengen-samstarfinu og áhrifum þess á íslenskt efnahagslíf, ferðaþjónustu og aðra þætti, er mjög hörð gagnrýni og varnaðarorð. Varnaðarorð er kannski ekki rétta hugtakið en gagnrýnin er til staðar. Þar er talað um óhagræði sem af þessu hljótist og aukinn tilkostnað. Að auki er hrakið ýmislegt sem fram hefur komið í umræðunni um það hagræði og þá kosti sem ríkisstjórnin, þar á meðal hæstv. utanrrh., segir fylgja þessu samstarfi. Aukinn ferðamannastraumur hefur verið nefndur og annað hagræði muni hljótast af Schengen-samkomulaginu. Það er allt hrakið í þessari skýrslu.

Nú þegar við óskum eftir upplýsingum og viðbrögðum við skýrslunni og við þeirri gagnrýni sem við höfum sett fram þá fáum við engin svör. Látum það vera að hæstv. utanrrh. geti ekki svarað af meiri nákvæmni en raun ber vitni um tilkostnaðinn, hvort hann verður 500 milljónir, 1.000 milljónir, 2.000 milljónir, menn vita það einfaldlega ekki. Hitt vita menn að tilkostnaðurinn verður mikill og einnig að óhagræðið verður mikið. Það er staðfest í þeirri skýrslu sem ríkisstjórnin skipaði til að gera sérstaka úttekt á þessu.

Þegar við síðan spyrjum hér á þingi hvers vegna eigi að kalla yfir okkur aukin útgjöld, aukin útgjöld fyrir íslenska skattgreiðendur og aukið óhagræði fyrir ferðaþjónustuna og aðra sem koma til með að tengjast þessu, þá er bara þögn, engu svarað.

Alþingi á annað og betra skilið en þessi viðbrögð.