Þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 19:28:08 (6077)

2000-04-06 19:28:08# 125. lþ. 94.15 fundur 237. mál: #A þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu# (breyting ýmissa laga) frv. 15/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[19:28]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Að forminu mun þetta hafa átt að vera andsvar við ræðu minni en uppistaðan var andsvar við ræðu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur í málinu á undan.

Í málflutningi sínum hér á Alþingi benti hæstv. utanrrh. á, ef ég man rétt, að af Schengen-samstarfinu hlytist margvíslegt hagræði. Er það ekki rétt munað hjá mér? Þar á meðal er væntanlega hagræði fyrir íslenska ferðaþjónustu. Síðan kemur fram álitsgerð frá stjórnskipaðri nefnd til að gera úttekt á einmitt þessu. Þar kemur fram að af þessu samstarfi hljótist óhagræði og mikill tilkostnaður. Þegar við auglýsum eftir rökum fyrir íslensku þjóðina og íslenska skattborgara til að ráðast í milljarða tilkostnað og taka á okkur slíkt óhagræði þá segir hæstv. utanrrh. stutt og laggott: Ég er einfaldlega ósammála þessu. Þarf ekki að færa einhver rök fyrir áliti af þessu tagi? Ég hefði haldið það.

Ég vil einnig vekja athygli á þeim vinnubrögðum að láta Alþingi, ég segi láta Alþingi samþykkja Schengen-samkomulagið eða ljúka umræðu um það degi áður en mikilvægt gagn í málinu kemur fram, eins og þessi rannsóknarskýrsla um áhrifin á ferðamálaiðnaðinn. Mér finnast þetta ekki boðleg vinnubrögð.