Þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 19:39:36 (6084)

2000-04-06 19:39:36# 125. lþ. 94.15 fundur 237. mál: #A þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu# (breyting ýmissa laga) frv. 15/2000, JB
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[19:39]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum vegna þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu. Ég vil vekja athygli á þeim atriðum sem hafa komið fram, bæði í lögunum og í þessum frv. og í þeim umræðum sem hafa verið.

Í fyrsta lagi liggur ljóst fyrir að fyrir ferðaþjónustu á Íslandi er ekki sýnilegur beinn ávinningur. Á sumum sviðum má vænta ávinnings en á öðrum má vænta þess að ekki verði ávinningur.

Það er líka vitað að þetta muni verða verulega kostnaðarsamt bæði reksturinn á eftirlitskerfinu og þessu samstarfi. Einnig verður stofnkostnaður svo skiptir milljörðum kr. hér á Keflavíkurflugvelli til að uppfylla þau ákvæði sem þar er um að ræða. Reyndar er sá kostnaður ekki ljós, hvorki varðandi rekstur þessa samstarfs né stofnkostnað sem hlýst beint af því. Ég ítreka að það hlýtur að vera áhyggjuefni þegar svo stórt mál er kynnt með þeim hætti.

Ég vil láta í ljós þá skoðun mína, og ekki síst í framhaldi af ágætri ábendingu hv. þm. Þorgerðar Gunnarsdóttur, þegar hún lagði áherslu á tvöföldun Reykjanesbrautarinnar í umræðunni um Schengen-málið. Ég tek alveg undir það með hv. þm. að samgöngur bæði á Reykjanesbrautinni og fyrsti hluti Vesturlandsvegar er orðinn sprunginn og mundi þurfa aðgerða við. Ég taldi reyndar að það hefði verið óskynsamlegt við afgreiðslu fjárlaga núna í haust og í þeim efnahagsaðgerðum sem ríkisstjórnin var með þá að velja þann kost að fresta framkvæmdum við samgöngumannvirki á höfuðborgarsvæðinu. Það hefði alveg eins mátt finna aðra leið til að fresta framkvæmdum og miklum fjárútlátum. Þar á meðal hefði verið skynsamlegra að mínu áliti að hætta við þennan mikla fjáraustur sem er fyrirsjáanlegur í kringum Schengen-samstarfið og flugstöðina að þarflausu og leggja það fjármagn heldur til þess að styrkja samgöngurnar út frá Reykjavík. Þetta hefði verið miklu skynsamlegri ráðstöfun. Ég harma það þegar ríkisstjórn fær stuðning við svo skammsýnar sparnaðaraðgerðir eins og hún er þar að leggja fram annars vegar og hins vegar óskynsamlegrar fjárfestingar sem hún er að leggja í í kringum þetta Schengen-samstarf.

Það er á nákvæmlega sama svæðinu sem þetta val er að fara fram. Það er alveg sama þó að hæstv. ráðherra segi að þetta sé pólitísk ákvörðun og við virðum hana sem slíka. Hitt er líka pólitísk ákvörðun að verja fjármagninu með þessum hætti þó að um leið verði aðrar framkvæmdir að vera á hakanum. Ég er viss um það, herra forseti, að góð samgöngumannvirki út frá Reykjavík væri mun jákvæðara fyrir ferðaþjónustuna í landinu en það að fjárfesta í þessu Schengen-samstarfi. Ég er sannfærður um það og það er pólitísk skoðun mín og vissa.

Ég deili fyllilega áhyggjum og áherslum íbúa þessa svæðis hér og tel að þeir hefðu átt að hafa meiri áhrif á gælu- og geðþóttaákvarðanir um val á fjárfestingum og gæluverkefnum sem þjóna ekki beint hagsmunum ríkisins --- þar virðast aðrir mikilvægari.

Ég vil líka spyrja um varðandi atriði sem kemur fram í skýrslunni um áhrif Schengen-samstarfsins á ferðaþjónustuna. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Schengen-aðild felur í sér breytingu á útgáfu vegabréfsáritana til Íslands því taka verður upp samræmdar vegabréfsáritanir fyrir allt Schengen-svæðið. Lagt verður niður núverandi kerfi þeirra ræðismanna Íslands sem hafa haft heimildir til útgáfu vegabréfsáritana því eingöngu verður hægt að gefa út vegabréfsáritanir í sendiráðum aðildarþjóðanna. Þetta þýðir að Ísland hefur gert samninga um að sendiráð Norðurlandanna (í flestum tilvikum Danmörk og hugsanlega eitt annað Schengen-ríki þar sem ekki eru norræn sendiráð), geti veitt ríkisborgurum utan Schengen-svæðisins í þessum sendiráðum (þar sem ekki er íslenskt sendiráð) vegabréfsáritanir til Íslands.``

[19:45]

Ég leyfi mér að spyrja: Er þá ekki hægt að fá áritanir í íslenskum sendiráðum? Verður að fara í háttvirt sendiráð Danmerkur? Væri ekki hægt að fara í íslensk sendiráð til að fá sér vegabréfsáritanir? Þær tengingar sem verið hafa við bæði sendiráðin og ræðismennina og hafa haft mikla þýðingu fyrir samstarf Íslands og tengsl út um lönd, verða þær rofnar í gegnum þessa aðgerð?

Mér finnst þarna ekki aðeins um sjálfstæðisskerðingu að ræða heldur líka um verulegt óhagræði að ræða. Ég tel að þarna sé verið að skera á tengsl sem hefð er fyrir og hafa verið til styrktar.

Ég vil líka, herra forseti, vekja athygli á því að með Schengen-samstarfinu, með því að byggja það upp eins og hér er lagt til, mun nánast öll utanlandsflugumferð fara í gegnum Keflavíkurflugvöll. Það mun vera krafan. Þar mun vera aðstaða til að halda fólki hæfilega aðskildu og krafa um að uppfylla þær öryggiskröfur og öryggisskyldur að geta horft djúpt í augun á þeim sem koma til þess að sjá hvort þeir séu hættulegir eða ekki. Það mun þá jafnframt þýða að flugvellir úti um land, á Egilsstöðum, Akureyri, Sauðárkróki og hvar annars staðar sem við vildum styrkja reglulegt millilandaflug með farþega og vörur, millilendingaflug, munu hafa stórlega skerta möguleika með þeim aðgerðum sem hér eru lagðar til.

Herra forseti. Ég tel þá pólitísku ákvörðun sem við fjöllum hér um vera skammsýna. Ég tel hana þrengja hag Íslands bæði inn á við og út á við. Hún þrengir að hagsmunum Íslands bæði til skemmri en þó sérstaklega til lengri tíma og er því að mínu viti afar óráðleg.