Vörugjald

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 20:09:09 (6095)

2000-04-06 20:09:09# 125. lþ. 94.20 fundur 520. mál: #A vörugjald# (fjárhæð gjalds af tilteknum vörum) frv. 103/2000, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[20:09]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Í frv. því sem ég mæli hér fyrir er lagt til að vörugjald verði fellt niður af tilteknum vörum og að fjárhæð gjaldsins verði breytt af öðrum vörum.

Markmiðið með þeim breytingum sem lagðar eru til er annars vegar að létta vörugjaldi af ýmsum vörum sem nýttar eru í iðnaði og hins vegar að auka samræmi í gjaldtöku af svipuðum eða sambærilegum vörum.

Í frv. er í fyrsta lagi lagt til að 15% vörugjald verði fellt niður af ýmsum rafmagnsvörum sem flokkast í vöruliði 8535-8538 í tollskrá. Nánar tiltekið er hér um að ræða ýmiss konar raftækjabúnað sem að verulegu leyti er nýttur í iðnaði, svo sem rafmagnstöflur, öryggisrofa, kveikjara og rafmagnstengla. Æskilegt er að vörugjaldinu verði aflétt af slíkum iðnaðarvörum í áföngum, eftir því sem staða ríkissjóðs veitir svigrúm til á hverjum tíma. Í frv. er lagt til að skref verði stigið í þá átt með niðurfellingu vörugjalds af fyrrgreindum rafmagnsvörum og létt undir með þeirri starfsemi sem hefur að miklu leyti búið við það í dag að þurfa að sækja um endurgreiðslur á þessu vörugjaldi sem kallað hefur á heilmikinn kostnað bæði hjá atvinnurekstrinum og því opinbera.

Í öðru lagi er lagt til að vörugjald verði fellt niður af vörugjaldsskyldu snakki, poppkorni, salthnetum, saltkexi og saltstöngum. Vörugjald af þessum vörum er ýmist 10, 20 eða 40 kr. á hvert kílógramm vörunnar. Ástæðan fyrir því að þessi breyting er lögð til er sú að misræmis þykir gæta í álagningu vörugjalds á snakk og sambærilegar vörur þar sem sumar (ÖJ: ... poppkorn í jeppunum.) tegundir bera vörugjald en aðrar ekki. Slíkt misræmi getur leitt til röskunar á samkeppni við markaðssetningu og sölu á vörum sem eru í beinni samkeppni innbyrðis um hylli neytenda. Heppilegast þykir að gjaldtaka af þessum hlutum verði að öllu leyti felld niður og því er þessi breyting lögð til.

Í þriðja lagi er lagt til að fjárhæð vörugjalds af kakói og vörum framleiddum úr því verði samræmd. Í dag er þar ósamræmi. Kakóduft og vörur framleiddar úr kakói bera að jafnaði vörugjald og er gjaldið í langflestum tilvikum 60 kr./kg. Á einstaka vörur er gjaldið lægra eða 15 kr./kg og má þar einkum nefna drykkjarvöruefni sem ætluð eru til framleiðslu á kakómalti með íblöndun í vatn. Lagt er til að gjaldtakan verði samræmd þannig að gjaldið verði 60 kr./kg. Með þeirri breytingu er gjaldtaka samræmd af vörum sem eru svipaðar að efnisinnihaldi og í samkeppni um hylli neytenda.

Ástæða þess að ekki er lagt til að vörugjaldið verði samræmt með því að lækka gjaldið af öllum vörum úr 60 kr. í 15 kr. er sú að mun fleiri vörutegundir bera hærra gjaldið og yrði tekjutap ríkissjóðs af slíkri gjaldbreytingu umtalsvert og mun meira en sem nemur tekjuauka ríkissjóðs af þeirri breytingu sem hér er lögð til.

Í fjórða lagi er lagt til að fellt verði niður 15% vörugjald af hjólbörum. Af hálfu hagsmunasamtaka iðnaðarins hefur um árabil verið lögð áhersla á að vörugjald verði fellt niður af þessum tækjum og þar sem staða ríkissjóðs þykir gefa svigrúm til slíkrar breytingar er hún lögð hér til.

Í fimmta lagi er lagt til að vörugjald verði fellt niður af marmara og öðrum steini sem ætlaður er til framleiðslu, svo sem legsteinagerðar. Ástæða þessa er hin sama og um síðasta atriðið sem ég nefndi. Hagsmunasamtök iðnaðarins hafa lagt ríka áherslu á niðurfellingu vörugjalds af þessari vöru og telja hana til þess fallna að efla innlendan iðnað.

Loks er í sjötta lagi lagt til í frv. að 25% vörugjald verði fellt niður af þeim vopnum og skotfærum sem enn bera vörugjald. Með lögum nr. 89/1998 var vörugjald fellt niður af ýmsum skotvopnum og skotfærum sem einkum eru notuð til veiða. Nokkrar tegundir slíkra vopna bera þó enn vörugjald. Lagt er til að vörugjaldið verði fellt niður af þeim vopnum sem enn bera slíkt gjald þar sem um er að ræða vörur sem einkum eru ætlaðar til íþróttaskotfimi og þykir eðlilegt að vörugjald af þeim verði fellt niður á sama hátt og af rifflum og öðrum skotvopnum og skotfærum sem notuð eru við veiðar.

Eins og fram kemur í grg. með frv. er áætlað að tekjutap ríkissjóðs vegna þessara breytinga verði á annað hundrað millj. kr. þó auðvitað sé mjög erfitt að meta slíkt tekjutap, eins og í öðrum sambærilegum málum, en þetta miðast við óbreytta sölu á þessum varningi.

Hér er um að ræða tvenns konar mál, herra forseti, annars vegar ívilnun gagnvart þeim atvinnurekstri sem enn ber vörugjöld, sérstaklega í rafmagnsiðnaðinum, og hins vegar samræmingu á hinum ýmsu neysluvörum sem bera vörugjöld en hafa ekki enn verið samræmd.

Ég legg til, herra forseti, að þessu máli verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.