Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 20:16:29 (6097)

2000-04-06 20:16:29# 125. lþ. 94.21 fundur 547. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (hlutabréf, lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv. 86/2000, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[20:16]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Á hverju þingi eru gerðar nokkrar almennar breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Ég mæli hér í dag fyrir frv. til laga um breytingu á þeim lögum. Í þessu frv. er að finna tillögur um ýmsar breytingar á grundvallarlögunum um tekjuskatt og eignarskatt en í aðalatriðum má skipta þessum breytingum í þrennt. Í fyrsta lagi er hér fjallað um skattlagningu tekna sem myndast vegna kaupa á hlutabréfum samkvæmt svokölluðum kauprétti. Í öðru lagi eru breytingar á skattalegri meðferð lífeyrisiðgjalda og í þriðja lagi er breyting á nýtingu hlutabréfaafsláttar í þá veru að lagt er til að hún nái einnig til erlendra hlutabréfa. Að auki eru lagðar til nokkrar smærri breytingar sem lúta einkum að framkvæmd laganna. Breytingarnar eru í aðalatriðum þessar, herra forseti:

Í frv. er að finna ný ákvæði um skattlagningu tekna á svokölluðum kaupréttarsamningum, en það hugtak er notað um kaup starfsmanna á hlutabréfum í fyrirtækjum sem þeir vinna hjá. Kaupréttur sem hluti launakjara hefur verið að ryðja sér til rúms hér á landi undanfarin missiri og hefur það fyrirkomulag þann mikilvæga kost að veita æ fleiri launamönnum beina hlutdeild í atvinnurekstri og myndar að auki hollustutengsl sem talin eru skipta máli í þessu sambandi. Í gildandi lögum er ekki sérstaklega kveðið á um skattlagningu slíkra tekna heldur er litið svo á að þær falli undir almenna reglu sem er að finna í 7. gr. laganna um starfstengdar greiðslur.

Skortur á skýrum lagaákvæðum hefur í vissum tilvikum leitt til vandkvæða um upptöku kaupréttarkerfis hér á landi og því er lagt til í frv. að tekin verði af tvímæli um hvernig skattskyldu þessara tekna skuli háttað og þessum málum komið í fastan farveg. Við samningu frv. var þess gætt að reglurnar yrðu einfaldar og skýrar og tækju einkum mið af útfærslu reglna í þeim löndum sem hafa mesta reynslu á þessu sviði, svo sem Bandaríkjunum og Bretlandi.

Lagt er til að tvenns konar reglur gildi um skattlagningu þessara tekna. Annars vegar meginregla, aðalregla, og hins vegar sérregla.

Í meginreglunni felst að til skattskyldra tekna teljist mismunur á gangverði þegar kaupréttur er nýttur og þeirri fjárhæð sem starfsmaður greiðir fyrir hlutabréfin samkvæmt kaupréttarsamningi. Með gangverði er átt við skráð gengi á þeim tíma sem kaupréttur er nýttur. Hafi félag ekki skráð gengi skal miðað við gangverð í viðskiptum með bréfin, ella bókfært verð eigin fjár samkvæmt síðasta endurskoðaða uppgjöri félagsins. Skattskyldan myndast um leið og rétturinn er nýttur, þ.e. á þeim tíma er starfsmaður leysir til sín bréfin og greiðir fyrir þau hið fyrir fram ákveðna verð.

Samkvæmt meginreglunni er því um að ræða endurgjald til starfsmanns fyrir vinnuframlag hans sem skattlagt er eins og aðrar launatekjur. Í meginreglunni er því kveðið með skýrum hætti á um ákvörðun þeirra tekna. Þessar tekjur mynda jafnframt stofn tryggingagjalds og iðgjalds til lífeyrissjóðs, einnig teljast þær til rekstrarkostnaðar hjá launagreiðanda. Þegar starfsmaður selur bréfin reiknast fjármagnstekjur af mismun söluverðs þess og gangverðs sem var þegar hann nýtti kaupréttinn.

Í sérreglunni felst hins vegar að um tekjur starfsmanna vegna kaupréttar fari alfarið eins og um fjármagnstekjur sé að ræða að uppfylltum tilteknum skilyrðum og þær skattlagðar samsvarandi með 10% skatti. Skilyrðin eru m.a. þau að kauprétturinn nái til allra fastráðinna starfsmanna, að starfsmaðurinn verði að eiga bréfin í tvö ár eftir að hann nýtir kaupréttinn og að hámark kaupréttar hvers starfsmann megi ekki vera hærra en 600 þús. kr. á ári að kaupverði. Í tilviki sérreglunnar er gangverð og kaupverð hið sama þegar samningur um kauprétt er gerður. Jafnframt þarf félag sem hefur í hyggju að veita starfsmönnum sínum kauprétt samkvæmt sérreglunni að senda áætlun um hann fyrir fram til ríkisskattstjóra til staðfestingar. Til skattskyldu samkvæmt sérreglunni stofnast því ekki fyrr en starfsmaðurinn selur bréf sín en ekki þegar kauprétturinn er nýttur eins og samkvæmt meginreglunni. Er skattstofninn þá mismunur á upphaflegu kaupverði og söluverði bréfanna og telst ekki til frádráttarbærs rekstrarkotnaðar hjá launagreiðanda.

Í annan stað er lagt til að gerðar verði breytingar á skattalegri meðferð lífeyrisiðgjalda. Það er önnur meginbreytingin í þessu frv. Í gildandi lögum er ekki að finna skýr ákvæði um rétt launagreiðanda til að draga iðgjöld til öflunar lífeyrisréttinda starfsmanna sinna frá sem rekstrarkostnað. Að sama skapi eru ákvæðin óljós um hvort telja eigi slík framlög launagreiðenda til skattskyldra tekna hjá launþegum sem þeirra njóta. Í frv. er þess vegna lagt til að tekinn verði af allur vafi um að lögaðili eða sjálfstætt starfandi maður geti talið til rekstrarkostnaðar iðgjöld til öflunar lífeyrisréttinda starfsmanna, enda séu þau tekjufærð í hendi launþegans. Jafnframt verði tekin upp skýr ákvæði um heimildir til að draga iðgjöld og framlög til öflunar lífeyrisréttinda frá skattskyldum tekjum launþega. Í því samhengi er lagt til að í stað þess að launþegi geti dregið frá skattskyldum tekjum sínum 4% vegna lífeyrisiðgjalda í samtryggingarsjóð og allt að 2% vegna séreignasparnaðar verði honum gert kleift að draga frá tekjum sínum allt að 20% samtals vegna lífeyrissparnaðar, þó að hámarki 1,5 millj. kr. á ári. Þetta á við um hvort heldur sem iðgjald er greitt í sameignar- eða séreignarsjóði samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Meginbreytingin frá gildandi lögum er því sú að framlag launagreiðanda verður nú tekjufært í hendi launþega en á móti fær launþeginn mun rýmri rétt til frádráttar, eða allt að 20%. Sem dæmi má nefna að launþegi sem í dag getur dregið allt að 6% eigið iðgjald frá tekjum og nýtur auk þess 6% framlags frá atvinnurekanda, eða samtals 12%, mun eftir breytinguna geta notið allt að 20% frádráttar. Í því tilviki er rýmkunin 8%. Hér er um umtalsverða almenna rýmkun að ræða á þeim hluta launagreiðslna sem geta verið frádráttarbærar frá skatti með skipulögðum lífeyrissparnaði. Þær njóta því skattfrestunar þangað til þess kemur að greiðslur berast úr lífeyrissjóðnum. Í þessu felst með öðrum orðum markviss hvatning til aukins sparnaðar. Til að auka áhuga og fjárhagslegan ávinning einstakinga á frekari lífeyrissparnaði er enn fremur lagt til að mótframlag launagreiðanda í formi lækkunar á tryggingagjaldi hækki úr 0,2% í allt að 0,4%. Ég mun á eftir, á þessum sama fundi, mæla fyrir frv. um breytingu á lögum um tryggingagjald þar sem tekið er á þessu atriði.

Reynst hefur erfitt að meta þátttöku almennings í viðbótarlífeyrissparnaði þar sem upplýsingar um þetta hafa ekki legið fyrir á einum stað. Getgátur hafa verið uppi um að þátttakan gæti verið um 15% þegar á heildina er litið. Hins vegar er vitað að rúmlega þriðjungur ríkisstarfsmanna hefur aukið við lífeyrissparnað sinn með þessum hætti.

Í könnun sem fyrirtækið Pricewaterhouse Coopers gerði í ársbyrjun fyrir fjmrn. á þátttöku almennings í viðbótarlífeyrissparnaði kemur hins vegar fram sú ánægjulega staðreynd að þátttakan virðist meiri en framangreindar getgátur segja til um. Þar kemur fram að rúmlega 27% þjóðarinnar nýtir sér nú þegar möguleikann á 2% viðbótarsparnaði. Í könnuninni kemur enn fremur fram að fleiri konur en karlar hafa sparað í þessu formi, flestir þátttakendur eru á aldursbilinu 30--49 ára og dreifingin virðist jöfn yfir landið allt. Jafnframt var í könnuninni skoðaður ásetningur fólks til þess að bæta 2% við lífeyrissparnað sinn og í ljós kom að rúmlega 40 af hundraði aðspurðra hefðu slíkt í hyggju. Síðast en ekki síst kom fram í könnuninni að 44% þeirra sem spurðir voru töldu mjög eða frekar líklegt að þeir mundu nýta sér þann möguleika að verja hærra hlutfalli af skattskyldum tekjum til viðbótarlífeyrissparnaðar ef slíkt væri heimilt. Allt bendir því til þess að ofangreind rýmkun, hvort sem er af frádráttarrétti launþegans eða mótframlagi launagreiðanda í formi lækkunar á tryggingagjaldi, muni leiða til þess að áhugi almennings á þessu hagstæða sparnaðarformi muni áfram aukast. Allt mun þetta verða til þess, herra forseti, ef að líkum lætur að treysta sess Íslands í fremstu röð í lífeyrismálum í heiminum.

Önnur fyrirhuguð breyting, herra forseti, sem ég vil nefna varðar hlutabréfaafsláttinn svokallaða. Eins og kunnugt er hefur mönnum um árabil verið heimilt að draga frá tekjum sínum tiltekna fjárhæð vegna fjárfestingar í atvinnurekstri. Þetta fyrirkomulag hefur án efa leitt til þess að þátttaka almennings á hlutabréfamarkaði er orðin mun almennari en ella hefði verið. Frádrátturinn hefur hingað til verið bundinn við fjárfestingu í innlendum hlutafélögum. Í frv. er hins vegar lagt til að frádráttarreglurnar verði rýmkaðar frá því sem nú er. Þar er lagt til að heimild til að draga frá tekjum einstaklinga fjárfestingu í hlutabréfum taki jafnt til innlendra sem erlendra félaga og þurfa erlendu félögin að sjálfsögðu að fullnægja öllum þeim skilyrðum sem gilda um innlendu félögin í lögunum. Þessi tillaga um breytingu leiðir af samningsskuldbindingum Íslands á grundvelli EES-samningsins og er til komin vegna athugasemda sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert við íslensk stjórnvöld varðandi núgildandi ákvæði.

Þessu tengd er breyting sem einnig er lagt til að ráðist verði í en hún varðar eignarskattsfrelsi hlutabréfa að tilteknu marki. Hingað til hefur eignarskattsfrelsið verið bundið við innlend skráð félög en það skilyrði verður nú fellt brott m.a. vegna athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA.

Ég vil að endingu nefna, herra forseti, að í frv. eru lagðar til nokkrar aðrar breytingar. Má þar helst nefna breytingu á 117. gr. laganna þar sem lagt er til að fjmrh. fari með túlkun á tvísköttunarsamningum og öðrum samningum sem gerðir hafa verið á grundvelli ákvæðisins í stað ríkisskattstjóra eins og nú er. Í því skyni geti fjmrh. gefið út verklagsreglur um túlkun á framkvæmd samninganna sem skattyfirvöld yrðu bundin af. Hann geti jafnframt gefið út álit um þetta efni sé eftir því leitað.

Um önnur atriði er óþarft að hafa hér mörg orð, herra forseti, en ég legg til að þessu máli verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.