Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 20:39:14 (6099)

2000-04-06 20:39:14# 125. lþ. 94.21 fundur 547. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (hlutabréf, lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv. 86/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[20:39]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir jákvæðar undirtektir við meginefni þessa frv. Að því er varðar kaupréttarákvæðin þá er náttúrlega alveg ljóst að við erum að fara hér út á nýtt svið í löggjöf. Þó eru fyrirmyndir þess til annars staðar frá eins og ég gat um í minni framsögu.

Auðvitað koma upp álitamál og það er sjálfsagt að nefndin fari yfir málið á breiðum grundvelli. Við í ráðuneytinu höfum farið mjög ítarlega ofan í þessa sálma og valið þá leið sem hér er fyrir hendi, valið sem sagt eina meginreglu en ákveðið að hafa afbrigði af henni sem sérreglu fyrir þá sem uppfylla sérstök skilyrði. Skilyrðin eru m.a. hugsuð þannig að enginn verði útundan í fyrirtækinu, að allir fastir starfsmenn fyrirtækis eigi rétt á þessu fyrirkomulagi þó að rétturinn sé ekki nákvæmlega eins, það sé ekki sama upphæðin --- hún gæti verið launatengd o.s.frv. --- og að menn tilkynni það skattyfirvöldum fyrir fram að þeir ætli að fara inn á þessar brautir, að sett verði ákveðið hámark í upphæðum þannig að menn flytji nú ekki öll laun yfir í þetta form og sömuleiðis að binda þetta í ákveðinn tíma áður en menn geti hagnýtt sér þessi réttindi.

Þingmaðurinn spurði hvers vegna væri miðað við tvö ár. Það er engin sérstök ástæða fyrir því. Það er bara tímabil sem var talið skynsamlegt í þessu sambandi, líka til þess að þjóna því markmiði að efla tengsl og mynda hollustusamband milli launagreiðandans og launþegans. Tvö ár voru talinn heppilegur tími að því leyti til því að við vitum að í mörgum starfsgreinum er mikil hreyfing á fólki, mikill órói. Fyrirtæki eru að kaupa starfsmenn hvert frá öðru, m.a. með tilboðum af þessum toga og þess vegna er nauðsynlegt að hafa einhverja festu í þessu ef menn ætla að fá að fara inn á sérregluna sem vissulega er mjög ívilnandi miðað við meginregluna.