Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 20:47:01 (6103)

2000-04-06 20:47:01# 125. lþ. 94.22 fundur 548. mál: #A virðisaukaskattur# (mötuneyti, rafrænn afsláttur o.fl.) frv. 105/2000, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[20:47]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Hér er mælt fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt. Frv. þetta er flutt í framhaldi af starfi nefndar sem ég skipaði í byrjun árs 1999 til að gera athugun á tilhögun og framkvæmd virðisaukaskattsins, m.a. í tilefni þess að röskur áratugur var liðinn frá setningu laganna um hann. Einnig átti nefndin að meta hvort reynslan af innheimtu skattsins gæfi tilefni til breytinga á löggjöf eða einhverjum framkvæmdaatriðum. Auk þess þótti ástæða til að fara yfir athuganir sem gerðar hafa verið á nokkrum þáttum er lúta að framkvæmd skattsins.

Nefndin lauk starfi sínu í febrúar með ítarlegri skýrslu sem ég hef þegar sent til allra alþingismanna. Starf nefndarinnar var umfangsmikið en hún kannaði flesta þætti skattkerfisins, virðisaukaskattsins, einkum framkvæmd hans, tekjuþróun og ýmis lagaleg atriði sem kynnu að þarfnast úrbóta. Fulltrúum ýmissa hagsmunasamtaka var gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við nefndina bæði skriflega og munnlega.

Meginniðurstöður nefndarstarfsins eru þessar helstar:

Virðisaukaskatturinn hefur staðið undir þeim væntingum sem til hans voru gerðar og tiltölulega góð sátt er um hann hjá hagsmunaaðilum. Hlutfall rauntekna virðisaukaskatts af reiknuðum virðisaukaskatti samkvæmt þjóðhagsstærðum hefur verið mjög stöðugt allt frá upphafi skattkerfisins árið 1990. Hækkun hlutfallsins á síðustu árum gefur vísbendingu um að skattskil hafi batnað. Undanskot virðast heldur minni nú en þau voru fyrir nokkrum árum. Má leiða líkur að því að þau séu á bilinu 6--8% af reiknuðum virðisaukaskatti sem jafngildir um 4--5 milljörðum kr. í tekjutap hjá ríkissjóði á ári hverju.

Endurgreiðsluhlutfall af matvöru til veitingahúsa verði hækkað til að jafna samkeppnisstöðu þeirra vegna sölu verslana á tilbúnum mat í lægra skattþrepi. Endurgreiðsluhlutfallið hækki úr 93,75% af innskatti matvöru í 112,5%.

Gerðar verði lagfæringar á reglum varðandi virðisaukaskatt í byggingarstarfsemi. Meðal annars verði reglur um notkun tækja einfaldaðar, afgreiðslutími endurgreiðslubeiðna styttur og þrjár reglugerðir sameinaðar í eina reglugerð.

Heimiluð verði að vali skattaðila takmörkuð einkanot virðisaukaskatts bifreiða gegn því að einkanotin verði útsköttuð, eins og kallað er, og á þau reiknuð bifreiðahlunnindi tekjuskatts hjá notanda hennar.

Afnumin verði heimild til innsköttunar á hópbifreiðar sem notaðar eru í skattskyldum atvinnurekstri þar sem fólksflutningar eru utan skattskyldusviðs.

Gerðar verði breytingar á reglum um virðisaukaskatt hjá opinberum fyrirtækjum. Þannig verði heimilaður að uppfylltum skilyrðum innskattur vegna kostnaðar í blandaðri starfsemi.

Skýrar verði kveðið á um skattskyldu mötuneyta opinberra stofnana og öryggisgæsla hjá opinberum stofnunum verði skattskyld með sama hætti og önnur eigin not.

Heimilt verði við virðisaukaskattskil að taka tillit til rafræns afsláttar sem veittur er eftir á í gegnum greiðslukortafyrirtæki að uppfylltum vissum skilyrðum. Tekin verði upp rafræn skil á virðisaukaskatti, bæði skýrslum og greiðslum, eins fljótt og unnt er. Skatteftirlit verði hert og beint í auknum mæli að virðisaukaskatti, m.a. verði eftirlit með tekjuskráningu eflt og fylgst með því að grunnskrá virðisaukaskatts sé rétt. Tekið verði áfram af festu á skattsvikum í virðisaukaskatti til að tryggja innheimtu hans og skilvirkni. Fjölgað verði um 15 manns á næstu tveimur árum við virðisaukaskattsframkvæmd hjá skattfyrirvöldum þannig að tíu menn komi til starfa í ársbyrjun 2001 og fimm í ársbyrjun 2002.

Teknar verði upp beinar innri endurskoðunaraðferðir í skattkerfinu til að koma í veg fyrir hugsanlegt misferli og gripið til sérgreindra ráðstafana við útborgun greiðslna yfir tiltekinni fjárhæð. Jafnframt verði meiri tengingar milli allra þátta skattframkvæmdar. Ýmsum framkvæmdaatriðum verði gefinn betri gaumur. Til dæmis verði leitað lausna til að draga úr áætlunum í skattkerfinu, samskipti tölvukerfa ríkisins verði betur skilgreind og komið á formlegu samstarfi ábyrgðaraðila kerfanna.

Herra forseti. Þetta eru meginatriði í skýrslu þessarar nefndar en hægt er að fullyrða að hér var á ferðinni afskaplega merkilegt nefndarstarf sem hefur skilað sér í þessu ítarlega og vandvirknislega nál., enda var leitað til allra helstu sérfræðinga í landinu um þetta mál.

Margt athyglisvert og jákvætt kemur fram í tillögu nefndarinnar. Meðal þess er nefndin kemst að niðurstöðu um er að tiltölulega góð sátt sé um þennan mikilvægasta tekjustofn ríkisins hjá hagsmunaaðilum og skatturinn standi undir þeim væntingum sem til hans eru gerðar. Það má því segja að þeir sem stóðu að undirbúningi þessa skatts og því að hann var innleiddur á Íslandi fyrir rúmum tíu árum hafi gert rétt enda var söluskatturinn að niðurlotum kominn eins og kunnugt er og virðist vera mun betri sátt um þennan skatt en var um söluskattinn á sínum tíma, svo gallaður sem hann var orðinn.

Nefndin hefur farið út í mjög umfangsmikla og athyglisverða greiningu á tekjum af skattinum þar sem stofn virðisaukaskattsins er reiknaður út frá þjóðhagsreikningum og hann síðan borinn saman við raunverulegan skattstofn eins og hann birtist í virðisaukaskattsskýrslum. Hlutfall rauntekna af reiknuðum skatti fer hækkandi samkvæmt þessum útreikningum eða úr 91% fyrsta ár virðisaukaskattsins í 94% árið 1998. Þessi hækkun hlutfallsins gefur óneitanlega þá vísbendingu að skil á skattinum hafi verið að batna á síðustu árum.

Fram hjá hinu verður þó ekki litið að þessir útreikningar benda einnig til þess að skattsvik séu 6--8% af þessum reiknaða stofni eða 4--5 milljarðar á ári eins og ég gat um sem er að sjálfsögðu allt of mikið. Ég tek undir tillögu nefndarinnar um nauðsyn þess að herða eftirlit með virðisaukaskattsframkvæmdinni, auka áherslur á virðisaukaskatt í skatteftirliti og skattrannsóknum og vænti ég þess að þessara tillagna sjái stað við gerð fjárlaga fyrir árið 2001. Ýmsar tillögur nefndarinnar eru þess eðlis að ekki þarf að gera breytingar á lögum heldur eingöngu á reglugerðum og verkferlum innan skattkerfisins. Vinna við þær breytingar er þegar hafin í ráðuneytinu. Aðrar tillögur kalla á lagabreytingar og frv. það sem hér er lagt fram byggist á tillögum nefndarinnar.

Meginatriði frv. eru þessi:

Í fyrsta lagi er lagt til að tekin verði af öll tvímæli um skattskyldu mötuneyta í eigu ríkis og sveitarfélaga vegna sölu á mat til starfsmanna á verði undir framleiðslukostnaði.

Í öðru lagi er lagt til að við uppgjör virðisaukaskatts verði heimilað að taka tillit til rafræns afsláttar sem veittur er í verslunum þegar greitt er með kreditkorti.

Í þriðja lagi er annars vegar verið að þrengja frádráttarheimild vegna bifreiða til fólksflutninga sem notaðar eru í virðisaukaskattskyldum rekstri. Er það gert m.a. til þess að jafna samkeppnisstöðu rekstraraðila í fólksflutningum sem ekki njóta frádráttar vegna innskatts. Hins vegar er verið að opna fyrir möguleika fyrir ráðherra til að setja reglur um skiptingu innskatts hjá opinberum aðilum.

Í fjórða lagi er lagt til að fjármálaráðherra geti sett reglur um rafræn skil á virðisaukaskatti.

Í fimmta lagi er lagt til að gerðar verði breytingar á endurgreiðslureglum 42. gr. laganna. Annars vegar er lagt til að endurgreiðslur á virðisaukaskatti til veitingahúsa verði hækkaðar úr 93,75% af innskatti vegna hráefniskaupa í 112,5%. Þannig er dregið úr því misræmi sem er komið upp vegna þess að verslanir eru í auknum mæli farnar að selja tilbúinn mat sem fellur í 14% skattþrep í samkeppni við veitingahús sem selja mat og aðrar veitingar í 24,5% skattþrepi. Þá þykir nauðsynlegt að setja hámark á endurgreiðslurnar. Hins vegar er lagt til að rekstrarleyfishöfum í fólksflutningum verði greiddur hluti virðisaukaskatts sem eftir stendur af verðmæti hópbifreiða sem seldar eru úr landi. Það er að sjálfsögðu góð tillaga, ekki aðeins vegna skattamálsins heldur líka vegna þess að þar er um sannkallað landhreinsunarmál að ræða.

Áætlað er að lækkun á tekjum ríkissjóðs vegna þessara breytinga geti orðið á bilinu 100--130 millj. kr. þegar öll kurl koma til grafar. Munar þar mest um hækkun endurgreiðslu til veitingahúsa sem er stærsti liðurinn í þessu máli.

Ég legg til, herra forseti, að frv. þessu verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.