Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 21:20:31 (6113)

2000-04-06 21:20:31# 125. lþ. 94.22 fundur 548. mál: #A virðisaukaskattur# (mötuneyti, rafrænn afsláttur o.fl.) frv. 105/2000, PHB
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[21:20]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér frv. til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt sem er afrakstur af nefndarstarfi. Sú nefnd hefur skilað af sér mikilli skýrslu sem ég því miður hef ekki haft nægilega mikil tök á að kynna mér en er eflaust mjög fróðleg.

Í 1. gr. segir, með leyfi herra forseta:

,,Jafnframt skulu ríki, sveitarfélög, stofnanir þeirra og fyrirtæki greiða virðisaukaskatt af framleiðsluverði á mat sem tilreiddur er í mötuneytum þeirra og seldur er starfsmönnum eða öðrum á verði undir framleiðsluverði.``

Ég, herra forseti, vil víkka þetta dálítið út. Ég vil auk þess gera ráð fyrir að þessi fyrirtæki skili hagnaði og gera ráð fyrir eðlilegum hagnaði. Önnur fyrirtæki þurfa að greiða virðisaukaskatt af hagnaðinum. Þau þurfa að borga virðisaukaskatt af allri útseldri vöru og þar með er hagnaður fyrirtækisins. Málið snýst þá ekki bara um framleiðsluverð. Vegna þess sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði hér áðan um að sveitarfélag hafi verið dæmt til að taka gjald fyrir ókeypis tjaldstæði þá vil ég víkka þetta út til allrar annarrar starfsemi sveitarfélaga sem eru í samkeppni við aðra, að þar skuli koma til virðisaukaskattur, ekki bara á framleiðsluverð á mat. Sveitarfélögin og hið opinbera hafa fært sig inn á mörg önnur svið, til dæmis tjaldstæði, sem hafa hingað til verið og eiga að vera á hendi samkeppnisaðila. Ég mun skoða það og vænti þess að hv. efh.- og viðskn. skoði þann möguleika að taka inn í þessa grein hagnað og eins aðra starfsemi á samkeppnismarkaði.