Tryggingagjald

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 21:24:54 (6115)

2000-04-06 21:24:54# 125. lþ. 94.23 fundur 550. mál: #A tryggingagjald# (lífeyrissparnaður) frv. 102/2000, PHB
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[21:24]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Fyrir rúmu ári ræddum við um þessa breytingu, að reyna að örva sparnað með því að ríkið greiddi 10% á móti sparnaði launþeganna og þá á því formi að tryggingagjaldið yrði lækkað. Menn áttu von á að þetta hefði þau áhrif að fólk færi að spara en reynslan hefur nú ekki orðið sú, enda benti ég á það á þeim tíma að um væri að ræða óskaplega margar litlar færslur, marga tvöhundruðkalla sem þyrfti að safna saman í bókhaldi fyrirtækja og hver færsla kostaði sitt í rekstri. Þetta er sem sagt mjög dýr leið til að styrkja sparnað og auk þess kemur hún eingöngu þeim til góða sem borga skatt á annað borð. Hinir sem ekki borga skatt fá ekki styrk til að spara og það finnst mér neikvætt. Svo er það þessi hugljómun að eingöngu eigi að styrkja sparnað til lífeyrisgreiðslna.

Við höfum nokkuð öflugt kerfi lífeyrissjóða sem geta að óbreyttum vöxtum tryggt nokkuð góðar lífeyristryggingar. Fólk er sem sagt nokkuð vel sett í ellinni með þann lífeyrissparnað og enginn hefur fært rök fyrir því að leggja meiri álögur á hinn vinnandi mann eða hvetja hann til þess á starfsævinni að hafa meira umleikis sem lífeyrisþegi.

Það sem vantar hér á landi er almennan sparnað, sparnað til að standa undir alls konar áföllum sem menn verða fyrir lífinu, hvort sem það er að klessukeyra bílinn, lenda í skilnaði eða einhverju þvíumlíku. Slíkan sparnað vantar illilega. Þar er pottur brotinn hjá fólki. Það á ekki fyrir þessum áföllum þegar þau dynja yfir. Það hefur verið lítill skilningur hjá almenningi á því að menn þurfi að eiga eitthvað í handraðanum til að mæta slíkum áföllum. Þessi sparnaður hefur ekki verið styrktur af ríkinu eða hvatt til hans og það er miður. Það er kannski erfitt að styrkja slíkan sparnað vegna þess að hann er ekki eins bundinn og það er erfitt að finna út hvað er sparnaður í því formi, menn geta tekið út af einni bankabókinni og lagt inn á aðra og þannig er spurning hve mikið framlagið er inn í þann sparnað.

En ég held að hæstv. ríkisstjórn ætti að hugleiða að hvetja menn til sparnaðar með öðrum hætti, t.d. með því að örva skilning manna á gildi sparnaðar sem slíks, hvers virði það er að eiga peninga í handraðanum. Menn eru sjálfstæðari og geta betur mætt áföllum. Eins þyrfti að upplýsa almenning um ókosti þess að skulda óhóflega. Þegar menn eru búnir að keyra allt í botn í heimilisbókhaldinu þannig að þeir eru farnir að borga kannski 50 þús. kr. á mánuði af fokdýrum jeppa þá getur orðið mjög erfitt að ráða við slíkan bita til fjölda ára. Þegar loksins er búið að borga jeppann niður þá er hann orðinn verðlaus. Þannig finnst mér skorta á að ríkisstjórnin kynni hvert gildi sparnaðar er og hvaða ókostir eru því samfara að skulda.

Sú leið sem menn hafa farið er á vissan hátt forræðishyggja. Því er stýrt hvernig þeir eiga að spara og þá fá þeir til þess styrk. Auk þess er þetta ekki félagslegt vegna þess að þeir sem ekki greiða skatt, þ.e. yfirleitt tekjulægsta fólkið, fær ekki styrk til að spara þó það gæti oft á tíðum sparað og sé kannski í mestri þörf fyrir að spara.

Ég hef því vissar efasemdir um þetta frv. eins og hið fyrra. Reyndar er styrkurinn orðinn það stór núna, sem sagt tvöfölduð upphæðin og allir þessir smáaurar verða þá tvisvar sinnum smáaurar og kannski farnir að nálgast eitthvað almennilegt. Af 100 þús. kr. tekjum á mánuði yrði styrkurinn 400 kr. í staðinn fyrir 200. Það var reyndar samkomulag um það í fyrra að þetta yrði greitt einu sinni á ári úr fyrirtækjunum. Samt sem áður þarf að halda utan um hverja einustu mánaðargreiðslu fyrir hvern einasta mann. Þannig er haldið utan um allar þessar greiðslur í kerfinu í bókhaldi fyrirtækjanna og þeir sem hafa komið nálægt bókhaldi vita að fjölgun færslna kostar heilmikið.