Ríkisábyrgðir

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 21:30:06 (6116)

2000-04-06 21:30:06# 125. lþ. 94.24 fundur 595. mál: #A ríkisábyrgðir# (Íbúðalánasjóður og LÍN) frv. 70/2000, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[21:30]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir.

Í frv. eru lagðar til tvær breytingar að því er varðar undanþágur frá greiðslu ábyrgðargjalds. Í fyrsta lagi er lagt til að skuldbindingar Íbúðalánasjóðs sem sjóðurinn tók við frá Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna verði undanþegnar greiðslu ábyrgðargjalds. Ljóst er að þar til útistandandi lán gömlu byggingarsjóðanna hafa verið innheimt mun þurfa að endurfjármagna lántökur þeirra til að mæta misvægi í greiðslustreymi innlána og útlána. Að óbreyttum lögum mun þurfa að greiða ábyrgðargjald af þeim lántökum. Lánþegar verða hins vegar ekki krafðir um greiðslu ábyrgðargjaldsins þar sem á móti þeim koma ekki ný útlán og mun því þurfa að mæta kostnaði vegna þessa með beinu framlagi úr ríkissjóði.

Í öðru lagi er lagt til að Lánasjóður ísl. námsmanna verði undanþeginn greiðslu ábyrgðargjalds. Sjóðurinn starfar á félagslegum grundvelli eins og kunnugt er og er fjármagnaður með lántökum á markaðsvöxtum. Mismuni á þeim og útlánsvöxtum sjóðsins er síðan mætt með framlagi úr ríkissjóði. Verði sjóðurinn áfram látinn greiða ábyrgðargjald verður að mæta kostnaði við gjaldið með samsvarandi framlögum úr ríkissjóði að því gefnu að ekki verði breytt útlánakjörum til námsmanna og gjaldið innheimt hjá þeim.

Í þessu ljósi tel ég eðlilegt að Lánasjóður ísl. námsmanna verði sömuleiðis undanþeginn greiðslu ábyrgðargjalds.

Ég vil taka fram að lagabreytingin raskar ekki í neinu samkeppnisstöðu fjármálastofnana á einkamarkaði gagnvart lánasjóðum í eigu ríkisins enda liggja sérstök sjónarmið að baki þessum fyrirhuguðu undanþágum.

Eins og áður sagði er Lánasjóður ísl. námsmanna fyrst og fremst félagslegur sjóður sem ætlað er að tryggja jafnrétti og öryggi við menntun óháð efnahag. Draga má í efa að Lánasjóður ísl. námsmanna starfi í raun á samkeppnismarkaði þar sem sjóðurinn starfar með félagsleg sjónarmið að leiðarljósi og býður námsmönnum vaxtakjör sem eru lægri en bjóðast annars staðar.

Hvað varðar undanþágu frá greiðslu ábyrgðargjalds vegna skuldbindinga Íbúðalánasjóðs nær hún eingöngu til gömlu sjóðanna sem svo eru kallaðir, gömlu byggingarsjóðanna, og því ljóst að sú undanþága hefur engin áhrif á lánamarkaðinn í dag. Lagabreytingin þjónar eingöngu þeim tilgangi að veita undanþágu frá greiðslu ábyrgðargjalds vegna endurfjármögnunar eldri lána og hefur engin áhrif á vaxtakjör sem bjóðast neytendum á lánamarkaði nú um stundir.

Hvað aðra starfsemi Íbúðalánasjóðs varðar greiða lántakendur í húsbréfakerfinu 0,35% álag á vexti fasteignaveðbréfa sem standa á móti útgefnum húsbréfum. Álaginu er ætlað að mæta vanskilum í kerfinu sem rekið er með ábyrgð ríkissjóðs.

Af lántökum Íbúðalánasjóðs vegna nýrra útlánaflokka utan húsbréfakerfisins verður áfram innheimt ábyrgðargjald og raskar breytingin því ekki samkeppnisstöðu gagnvart öðrum lánveitendum.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa um þetta mál fleiri orð en legg til að því verði vísað til hv. efh.- og viðskn. og 2. umr. að lokinni umræðunni.