Ríkisábyrgðir

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 21:33:00 (6117)

2000-04-06 21:33:00# 125. lþ. 94.24 fundur 595. mál: #A ríkisábyrgðir# (Íbúðalánasjóður og LÍN) frv. 70/2000, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[21:33]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég sé ekki annað en að það sé rétt og skynsamleg leið sem hæstv. ráðherra mælir fyrir að undanþiggja frá greiðslu ábyrgðargjalds byggingarsjóðina og Lánasjóð ísl. námsmanna.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, af því að hér er vísað til þess að þessir sjóðir, byggingarsjóðirnir, hættu starfsemi með lögum nr. 4/1998: Hefur þá safnast upp skuld hjá Íbúðalánasjóði við ríkissjóð eða hefur Íbúðalánasjóður staðið skil á þessu gjaldi fram að þessu eða þar til þessu verður breytt núna með lögum?

Ég vil spyrja af því að það óvanalega er að með þessu frv. er ekkert mat frá fjárlagaskrifstofu, ekki það sem ég hef undir höndum, hvað þessi breyting þýðir þá í tekjutap fyrir ríkissjóð sé ekki staðið skil á þessu gjaldi. Síðan er spurning hvort safnast hafi upp skuld og ef svo er hvort hún verði þá felld niður þegar þetta frv. verður samþykkt.