Staðfest samvist

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 22:05:35 (6127)

2000-04-06 22:05:35# 125. lþ. 94.18 fundur 558. mál: #A staðfest samvist# (búsetuskilyrði o.fl.) frv. 52/2000, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[22:05]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spurði um 2. gr. frv. Þetta er í raun ekki efnisleg breyting heldur fyrst og fremst tæknilegt atriði. Þarna er m.a. verið að ræða um feðrunarreglur í barnalögum sem eiga ekki við um fólk sem er í staðfestri samvist. Það virðist vera að gleymst hafi að setja þessa skýringu eða ákvæði inn í upprunalega frv. um staðfesta samvist og þykir rétt að setja það fram til frekari skýringar enda nefndi ég það í framsögu minni að svipað ákvæði væri í sambærilegri löggjöf annars staðar á Norðurlöndum. Vera má að hv. þm. finnist vera of flóknar skýringar á þessu atriði en ég held þó að þetta komi skýrt fram í grg.

Að öðru leyti vil ég taka fram að þinginu er að sjálfsögðu frjálst að taka mál til meðferðar hvenær sem er og koma með tillögur um lagabreytingar. Hins vegar kom fram þegar rætt var um heildarlöggjöf um ættleiðingar fyrr á þessu þingi að ýmsir hv. þm. vildu athuga hvort hægt væri að koma ættleiðingum varðandi staðfesta samvist undir þá löggjöf en það hefði ekki verið lögfræðilega rétt. Ég upplýsti á þeim tíma að til stæði að endurskoða lögin um staðfesta samvist og lét þá þau orð falla sem ég kom með í framsögu minni. Þetta ætti því að vera alveg skýrt.

Ég vil bara taka undir með hv. formanni allshn. sem skýrði frá hvernig umræður áttu sér stað á þessum tíma. Það er vissulega nokkuð sérstök leið sem hér er farin en að mínu mati er sú aðferð þingræðisleg sem hér er farin. Þetta er þverpólitískt mál sem við erum að fjalla um og ég treysti því að allshn. muni fara vel og vandlega yfir það og koma með góðar tillögur í því sambandi.