Staðfest samvist

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 22:07:44 (6128)

2000-04-06 22:07:44# 125. lþ. 94.18 fundur 558. mál: #A staðfest samvist# (búsetuskilyrði o.fl.) frv. 52/2000, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[22:07]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst það stundum hvimleitt þegar ráðherrar eða stjórnarþingmenn koma upp eftir hentugleikum og benda okkur hinum á að þingið geti komið með tillögur og fjallað um mál að vild. Auðvitað er það þannig. Það vitum við og höfum alltaf vitað. En málið snýst ekki um það hvort við megum koma með tillögur eða leggja til mál eða taka mál til umfjöllunar. Málið snýst um það hvað verður samþykkt. Málið snýst um að kalla fram meirihlutavilja sem er þá frjáls en ekki bundinn af því hvar menn eru staddir í stjórn eða stjórnarandstöðu, það sé hægt að kalla fram breytingar á lögum til heilla fyrir land og lýð án tillits til þess hver flytur málið. Við stjórnarandstæðingar höfum hins vegar mátt sitja undir því að mál sem við flytjum eru sjaldnast samþykkt. Við megum meira að segja sæta því að flytja mál og að ráðherra flytji síðan sama mál og það verður að samþykkja mál ráðherrans en ekki þingmannsins þó um sama efni sé að ræða. Menn geta því komið og sagt að þingið geti tekið hvaða mál til umræðu sem er og sett fram hvaða tillögu sem er og ég segi já, sannarlega er það rétt, en spurningin er hvað er samþykkt. Af því að reynslan er búin að kenna okkur öllum og það fyrir löngu, þetta er búið að liggja fyrir lengi og það hefur alltaf verið með svipuðum hætti, að það eru fyrst og fremst þau mál sem ríkisstjórnin ber fram sem eru samþykkt og stundum virkar þetta sem afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórnina, þá finnst manni það skipta máli ef manni er annt um hlutina að það sé alveg klárt að málið fái þá framgang eftir þeim leiðum sem hér eru algengastar, þ.e. með stjórnarmeirihluta.