Landsvirkjun

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 10:37:59 (6139)

2000-04-07 10:37:59# 125. lþ. 95.23 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[10:37]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þegar þetta mál kom hér til 1. umr. voru uppi ýmsar vangaveltur bæði hjá mér og í ræðum fleiri hv. þm., svo sem hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur. Við héldum því fram að hér væru ekki öll kurl komin til grafar, hér lægi fiskur undir steini og hér værum við á gruggugu vatni.

Ég sakna þess úr ræðu formanns hv. iðnn., Hjálmars Árnasonar, að ekki skuli vikið að því einu orði hvernig nú er komið. Það hefur komið í ljós eftir að málið kom til 1. umr. að búið var að stofna þetta fyrirtæki sem Landsvirkjun óskar með þessum lögum eftir að fá að stofna. Ég sakna þess sárlega að ekki skuli hafa komið frekar fram í máli formanns hv. iðnn. hvernig málið er vaxið. Er það rétt að hér sé verið að klóra yfir eitthvað eftir á, að fjarskiptafyrirtækið sem Landsvirkjun á aðild að sé þegar stofnað, sé þegar farið að bjóða í verk og hér sé verið að semja lög og samþykkja eftir á, eftir að málið er komið miklu lengra en hv. Alþingi fékk vitneskju um í byrjun?