Landsvirkjun

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 10:41:06 (6142)

2000-04-07 10:41:06# 125. lþ. 95.23 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[10:41]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég er hér ekki til að svara fyrir ákvarðanir Landsvirkjunar, á hvorki sæti í stjórn né hef nokkurn aðgang að ákvarðanatöku þar. Ég mun því ekkert svara fyrir ákvarðanir Landsvirkjunar. Þar eru fulltrúar Alþingis og fulltrúar sveitarstjórna, þar á meðal Reykjavíkurborgar, og eftir því sem ég hef lesið í fundargerðum Landsvirkjunar þá mun hafa verið einhugur um ákvörðunina innan stjórnar Landsvirkjunar. En ég tek það fram að ég er hér ekki til að svara fyrir Landsvirkjun á nokkurn hátt.

Ég ítreka hins vegar, hvort sem hv. þm. telur að Alþingi hafi verið blekkt eða ekki, að ég lít svo á að hv. Alþingi sé hér að taka afstöðu varðandi þessi atriði: Á Landsvirkjun að fá heimild til þess að nýta þann búnað sem hér hefur verið nefndur til fjarskipta? Á Landsvirkjun að hleypa öðrum fyrirtækjum að búnaðinum? Á Landsvirkjun að geta haslað sér völl á fjarskiptamarkaði? Það er í raun prinsippið sem löggjafinn er að fjalla um.

Hv. meiri hluti iðnn. styður það sjónarmið og eingöngu það prinsipp. Ef eitthvað annað kann að vera óeðlilegt í ákvörðunum Landsvirkjunar, ef Landsvirkjun er að brjóta lög, ef Landsvirkjun er að gera einhverja óeðlilega hluti, þá á að kæra það til dómstóla, til Samkeppnisstofnunar eða þeirra sem um slíkt fjalla, eða að beina slíku til stjórnar Landsvirkjunar. En mér finnst mikilvægt að greina á milli ákvarðana framkvæmdarvaldsins í einstökum stofnunum hins opinbera og almennrar löggjafar sem hv. Alþingi stendur að.